145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nýta tækifærið hér í dag til þess að ræða umferðarlög og þá sérstaklega farsímanotkun ökumanna. Í 47. gr. umferðarlaga segir, með leyfi forseta:

„Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.“

Viðurlög við þessu umferðarlagabroti eru 5.000 kr.

Reglulega koma tilkynningar frá lögreglu þar sem brýnt er fyrir ökumönnum að tala ekki í farsíma við akstur og þeir hvattir til þess að nota handfrjálsan búnað. Með árunum nota sífellt fleiri farsíma undir stýri. Þegar farið er út í umferðina þarf að vera með fulla og óskipta athygli. Eftir því sem tækninni fleytir fram og fleiri smáforrit í farsíma verða til verður áreitið sífellt meira og símarnir hætta vart að gefa frá sér tilkynningar.

Rannsóknir hafa sýnt að með árunum hafa fleiri slys orðið vegna farsímanotkunar þar sem ökumenn eru ekki með óskipta athygli við aksturinn. Á stuttum tíma fer bíllinn langa leið og margt getur farið úrskeiðis ef athyglinni er ekki beint að akstrinum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að með árunum hefur farsímanotkun ökumanna breyst. Töluverð aukning hefur verið á þeim sem nýta sér farsímana til að skoða internetið undir stýri.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessari þróun. Sérstaklega hversu auðvelt það er að tengjast netinu og auðvelt er að tengjast ýmsum forritum í snjallsímum. Ég velti því fyrir mér hvort við sem hér sitjum þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að herða viðurlög við farsímanotkun undir stýri eða setja aukna fjármuni í forvarnir gagnvart farsímanotkun undir stýri. Sama hvað þá verður að bregðast við aukinni farsímanotkun ökumanna.

Að lokum hvet ég ykkur sem hér sitjið til að fylgjast með ökumönnum og taka eftir hversu margir eru virkilega í farsímanum undir stýri.


Efnisorð er vísa í ræðuna