145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Verðtryggðar eignir Arion banka eru 289 milljarðar kr. og verðtryggðar skuldir 204 milljarðar. Munurinn er því jákvæður um 85 milljarða. Hjá Íslandsbanka eru verðtryggðar eignir 252 milljarðar, en verðtryggðar skuldir 195 milljarðar og verðtryggingarjöfnuður því jákvæður um 57 milljarða. Verðtryggðar eignir Landsbankans eru 256 milljarðar og verðtryggðar skuldir 98 milljarðar. Verðtryggingarjöfnuður bankans er því jákvæður um 158 milljarða. Samtals er því verðtryggingarjöfnuður bankanna jákvæður um 300 milljarða kr. Þetta kom fram í frétt sem birtist á Vísi í gær. Þar kemur jafnframt fram að í hvert skipti sem verðbólga eykst um eitt prósentustig þá hagnast bankarnir um 3 milljarða kr. ef við horfum á þann verðtryggingarjöfnuð sem nú er í gangi.

Í lok október mældist verðbólga 1,8%, en Seðlabankinn spáir verðbólguskoti á næsta ári og að verðbólga fari í rúmlega 4%. Þetta er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum verið að segja um verðtrygginguna, þ.e. að bankar hagnast vegna verðtryggingar þegar verðbólga hækkar. Sá hagnaður er fjármagnaður af heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Vert er að geta þess að ákveðið samspil er á milli hárra vaxta og verðtryggingar. Þess vegna er nauðsynlegt að afnema verðtrygginguna og taka á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Við verðum að taka úr sambandi það lánaform sem heimilin búa við þegar fjárfesta á í húsnæði, þ.e. verðtrygginguna. Skuldahlið heimilanna á ekki að fjármagna uppsveiflu bankanna. Það má ekki gerast. Við sem hér erum við verðum að fá svör frá hæstv. fjármálaráðherra um það hvenær frumvörp er varða afnám verðtryggingar verða lögð fyrir þingið.

Vegna fréttarinnar sem birtist á vef Vísis í gær og ég vitnaði hér í þá hef ég undirbúið fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem ég spyr tveggja spurninga. Önnur er: Hversu hátt hlutfall af verðtryggðum eignum bankanna þriggja eru verðtryggð húsnæðislán? Hin spurningin er: Hversu hátt hlutfall af verðtryggðum eignum bankanna þriggja (Forseti hringir.) eru önnur verðtryggð lán til heimila landsins?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna