145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Forseti. Mig langar að fjalla aðeins um umræður sem fóru fram hér í gær í gær í tengslum við frumvarp til fjáraukalaga. Í þeim umræðum kom fram að fyrir liggur að seld verði fjármálafyrirtæki. Upphæðir sem nefndar voru í því samhengi hljóðuðu upp á jafnvel 400 milljarða. Er þar átt við Íslandsbanka og hluta af Landsbankanum.

Í tengslum við umræðu um frumvarp til fjáraukalaga vaknaði því sú spurning hjá mér: Þarf ekki að ganga frá lögum þannig að ábyrgð á bankastarfseminni falli ekki á ríkissjóð ef bankastarfsemin fellur? Þjóðin þarf sem minnsta ábyrgð að bera með tilheyrandi kostnaði og lífskjararýrnun til framtíðar. Þarna er algert lykilmál sem þarf að vera búið að ganga frá áður en til sölunnar kemur. Það sem hefur verið gert undanfarin ár er að þegar bankarnir voru stofnaðir var þeim gert að eigið fé yrði ekki minna en 16%, sem hefur í raun aukist þannig að eigið fé stóru bankanna þriggja er komið vel yfir 20%. Búið er að innleiða Basel III reglurnar sem tryggja að leggja megi á umtalsverða eiginfjárauka. En það sem á eftir að gera hér er að komast að niðurstöðu um hvort aðskilja eigi viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi og setja lög um slit fjármálafyrirtækja sem komast í þrot. Þar vakna spurningar um hvort innstæður verða áfram forgangskröfur í bú föllnu bankanna og hvorki í slitaferli samfelldra banka verði unnt að tryggja betur hagsmuni almennra viðskiptamanna. Lítið hefur gerst í þeim efnum að undanförnu en afar mikilvægt er að þessari vinnu verði flýtt til að íbúar landsins standi ekki frammi fyrir því aftur að þurfa að bera ábyrgð ef fjármálastofnanir falla.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna