145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Í síðustu viku voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna greidd atkvæði um ályktun um bann við kjarnorkuvopnum og útbreiðslu þeirra. Ísland var í hópi þeirra 29 ríkja sem greiddu atkvæði gegn tillögunum. Ísland greiddi atkvæði gegn því að banna kjarnorkuvopn.

Þau tíðindi hafa komið mörgum í opna skjöldu og vakið hneykslun þótt raunar ættu þau ekki að koma ýkjamikið á óvart. Ísland hefur nefnilega ítrekað greitt atkvæði í svipuðum málum í samræmi við stefnu kjarnorkuvopnabandalagsins NATO. Það er bagalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að hvorki hæstv. utanríkisráðherra né hæstv. forsætisráðherra séu hér þessa vikuna til að rökstyðja atkvæði Íslands en ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn um málið sem vonandi verður dreift hér innan tíðar. Þá verður vonandi hægt að fá einhver svör varðandi þessi mál.

En þó svo að Ísland hafi greitt atkvæði gegn banninu var ályktunin sem betur fer, leyfi ég mér að segja, samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta þar sem 128 ríki greiddu atkvæði með banninu, 29 gegn og 18 sátu hjá og þar með talið raunar nokkur aðildarríki NATO. Þingið, þ.e. Alþingi Íslands, getur þó enn gripið inn í þessa ömurlegu utanríkisstefnu Íslands. Þingsályktunartillaga sem lögð er fram af þeirri sem hér stendur ásamt fleiri hv. þingmönnum og er samhljóða tillögunni sem greidd voru atkvæði um hjá Sameinuðu þjóðunum, bíður þess að komast á dagskrá. Í ljósi þessara frétta tel ég sérlega mikilvægt að hún komist á dagskrá sem allra fyrst, helst fyrst fyrir jól.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna