145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það eru ekkert rosalega mörg ár síðan við Íslendingar vorum á þeim stað að ef duttu inn í bát eða frystihús fiskar sem okkur fannst vera ljótir eða skrýtnir hentum við þeim. Það voru helst útlendingar, ef þeir voru á svæðinu, t.d. frændur okkar Færeyingar, sem hirtu þetta og hlógu að okkur af því að við nýttum ekki þessa góðu vöru.

Við segjum oft þessa gamansögu af því að okkur finnst við hafa verið svo miklir kjánar þá.

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort við séum enn á þeim stað sama stað, bara hvað varðar annað. Nú er það þannig sem betur fer úti um allan heim að fólk leggur meiri áherslu á heilnæmi matvöru en áður. Ég verð ekki var við það, þrátt fyrir að rannsóknir sýni að við séum með heilnæmari hefðbundna kjötvöru en aðrar þjóðir í Evrópu, við og Norðmenn erum í sérflokki þegar kemur að sýklalyfjanotkun, að því sé haldið á lofti nokkurs staðar. Við tölum eins og þetta sé ekki til.

Ég er ekki einn af þeim sem halda að það sé bráðdrepandi að borða útlent kjöt. Ef einhver vill borða útlent kjöt, hvort sem dýrið var fóðrað með erfðabreyttu byggi, hormónum eða öðru slíku, finnst mér að fólk eigi að hafa frelsi til þess. Ég tel hins vegar að við sem neytendur eigum að fá upplýsingar um það sem er í vörunni okkar, jafnt kjöti sem öðru. Mér finnst mikið vanta upp á það og sömuleiðis að við nýtum kostina sem felast í því að vera með heilnæmar landbúnaðarvörur. Það er einhvers konar heimsmet að við séum með þessa vöru á sama tíma og hlaðast upp kjötfjöll, t.d. í landbúnaði.

Þetta eru ekki sérstaklega hagsmunir bænda, þetta eru hagsmunir þjóðarinnar (Forseti hringir.) og reyndar verslunarinnar líka.


Efnisorð er vísa í ræðuna