145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

Haf- og vatnarannsóknir.

199. mál
[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða fyrra frumvarpið af tveimur sem tengjast sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, frumvarp um Haf- og vatnarannsóknir. Við munum ekki standa að afgreiðslu þessa máls og fyrir því eru þau rök helst að við höfum verið gagnrýnin á það hvernig staðið er að málum hvað starfsmenn stofnananna snertir og þá aðferð að segja þeim öllum upp og rjúfa ráðningarsambandið og endurráða til nýrrar stofnunar. Það virðist hafa komið í ljós við vinnu nefndarinnar að mönnum hefur meðal annars yfirsést að með þessu geta glatast ýmis réttindi og við því er meiri hluti nefndarinnar að reyna að sjá með breytingartillögu á þskj. 328. Við höfum þó enga tryggingu fyrir því að þar hafi menn róið fyrir hverja vík og það má gagnrýna þessa aðferðafræði.

Í öðru lagi teljum við skorta nokkuð upp á fagleg rök fyrir sameiningu stofnunarinnar og þá í þessa átt. Þetta var rækilega skoðað fyrir einum þremur, fjórum árum og niðurstaðan varð sú að þessi stofnun ætti meira skylt við og betur heima undir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en hjá atvinnuvegaráðuneytinu sem fer með nýtingarþættina. Fyrir þessu (Forseti hringir.) eru bæði mikilvæg rök sem tengjast hagsmunum starfsmanna og síðan fagleg rök sem valda því að við getum ekki stutt þetta mál.