145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka hv. þingmanni og formanni umhverfis- og samgöngunefndar samstarfið í þessu máli og óska honum til hamingju með þessa niðurstöðu, sem og öðrum nefndarmönnum í nefndinni. Það er ánægjulegt að við skyldum ná að lenda þessu með sameiginlegu nefndaráliti þó að ekki sé samhljómur í öllu. Mér finnst þetta mál fyrst og síðast sigur fyrir náttúru Íslands og að sama skapi kannski pólitískur sigur fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem er upphafsmaður þess máls sem hér verður að lögum, auðvitað með breytingum sem fram hafa komið á þessu kjörtímabili.

Á síðustu metrum vinnu okkar sem var ánægjuleg að mörgu leyti en ekki án átaka tókst okkur ekki að ná saman um ákvæði um utanvegaakstur. Á lokametrunum höfum við í minni hlutanum smíðað breytingartillögu við frumvarpið sem efnislega gengur skemmra en ýtrustu kröfur gerðu innan nefndarinnar. Það eru ekki efnislega miklar breytingar á ferðinni í breytingartillögunni og mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér tillögu okkar og hvort honum hugnist hún ekki frekar en það orðalag sem er í frumvarpinu. Ég held að ef nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd kynntu sér orðalagið, eins og það lítur út núna, sæju þeir að þetta er mun snyrtilegri og snotrari leið til að afgreiða utanvegaaksturinn án efnislegra breytinga frá því sem var en miklu skýrari löggjöf.