145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já við náðum ekki alveg saman um þetta, en það er alveg rétt að það skilur svo sem ekki mikið á milli. Ég vil í fyrsta lagi vísa til þeirrar sáttar sem hefur náðst um þetta og taka fram að fjölmargir aðilar hafa þurft, vegna starfa sinna, hefðar eða venju, að fara um hálendi Íslands. Tilgangurinn með því var ekki að reyna einhvern veginn að takmarka það. Við vildum hins vegar setja þá meginreglu að óheimilt væri að aka þar.

Við vorum heldur ekki alveg sammála um það hvort Umhverfisstofnun gæti með sérstöku leyfi veitt öðrum aðilum heimild og að ráðherra „skuli“ í reglugerð. Ég er þeirrar skoðunar að við séum að fara þessa vegslóð vegna þess að við vildum taka þetta úr þeim farvegi. Þetta er ekki nógu skýrt. Ég er þeirrar skoðunar að ákvæðinu sé betur fyrir komið í lögunum. Það gilda einfaldlega lög á Íslandi eins og réttarástandið er í dag varðandi það að þetta sé í reglugerð eins og kveðið er um á hérna, að ráðherra skuli „í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu undanþágna samkvæmt þessari málsgrein“. Ég er ekki þar, en að sjálfsögðu virði ég það að þessi breytingartillaga hafi komið fram. Mér þykir leitt að við skyldum ekki ná 100% samstöðu en sætti mig mjög vel við 99,9%.