145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sameiginlegt nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, í þeirri örlagaþrungnu viku sem endar á galdradagsetningunni 15. nóvember 2015. Það er dagurinn sem náttúruverndarlög, nr. 60/2013, ganga í gildi með þeim breytingartillögum sem við erum að leggja hér fram. Ég fagna því sérstaklega að við höfum náð samstöðu um hvers eðlis þær breytingar eiga að vera. Hér er um að ræða verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. Hér er um að ræða verulega framför frá lögunum frá 1999. Sama á hvaða þátt laganna er litið þá stöndum við betur en í núgildandi lögum. Það var auðvitað markmiðið með leiðangrinum þegar lagt var upp í hann strax sumarið 2009 þegar lagt var í gerð hvítbókar um náttúruvernd á Íslandi.

Eins og veruleikinn er hjá okkur sem erum í stjórnmálum og veljumst til forustu þá finnst okkur kjörtímabilin oft löng þegar við erum í minni hluta, en okkur finnst þau heldur stutt þegar við ráðum einhverju. Ég hef verið mjög hugsi yfir því þegar um er að ræða umfangsmikla löggjöf eins og hér er, þegar við erum að tala um heildarendurskoðun löggjafar af þessum þunga og af þessari breidd sem hér er, þá er vandséð að slík vinna geti rúmast innan kjörtímabils. Það er einfaldlega þannig að ef á að fara út í hvert horn í umræðunni og umfjölluninni um alla þætti máls þá þarf stærri atrennu að málinu og niðurstaðan sem við erum að komast að hér núna er niðurstaða sem er verkefni tveggja kjörtímabila. Það er ekki sjálfgefið að við komumst að slíkri niðurstöðu í þeirri stjórnmálahefð sem við erum því miður sliguð af oftar en ekki, sem einhver hefur kallað kollsteypustjórnmál þar sem við höfum tilhneigingu til að leggja til hliðar það sem fyrri ríkisstjórn gerði til að koma að auðu borði og hreinu blaði sjálf. Í þessu efni var það kannski tónninn sem var sleginn af núverandi ríkisstjórn á fyrstu dögum eftir að hún tók við. Síðan tókst með löngum samtölum og miklu samráði að afstýra því að lögin yrðu einfaldlega felld úr gildi og var tekin sú skynsamlega ákvörðun að byggja á þeim og þeirri miklu vinnu sem hafði farið fram í aðdragandanum og var sannarlega ekki bara vinna sem var lögð upp af hendi stjórnmálamanna heldur ekki síður allra þeirra sem best þekkja til í þessum vandasama geira. Þá erum við að tala um þá sem best kunna á náttúruvernd og þau sjónarmið sem þar eru undir, þ.e. þær stofnanir og þá aðila sem þurfa að vinna samkvæmt lögunum, fræðimenn og fagfólk á þessum sviðum, grasrótarhreyfingar og hagsmunaaðila sem þurfa annaðhvort að sæta náttúruvernd eða taka sér stöðu með náttúrunni og fagna því að hún njóti tilskilinnar verndar.

Í vinnunni sem nefndin hefur haft með höndum undanfarnar vikur og frá því að vinnan hófst á þessu þingi þá höfum við í raun og veru í höndunum tillögu hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur um það hverjar breytingartillögur hún telur brýnastar á lögunum frá 2013. Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju með það að skýrt var í umfjöllun nefndarinnar að málið væri á forræði þverpólitískrar nálgunar þó að um væri að ræða hefðbundið stjórnarfrumvarp formsins vegna. Þar með var í raun og veru hver liður frumvarps ráðherra til opinnar og gagnrýninnar umræðu þar sem sjónarmið fengu að koma fram og þau voru rædd og reifuð. Við freistuðum þess síðan að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Þetta er flókin og stór löggjöf. Við erum með stóran ríkisstjórnarmeirihluta með 38 atkvæðum í sal á góðum degi, eða vondum eftir því hvernig við lítum á það, og þess vegna fagna ég því sérstaklega að okkur er að takast að sigla þessu til hafnar sameiginlega. Það er ekki sjálfgefið mál. Ég hef leyft mér að segja að það þurfi ábyrgan minni hluta til að ná þverpólitískri samstöðu. Við okkur öllum blasir sú freisting í dagsins önn að nýta okkur ágreining til pólitísks ávinnings í deginum og í stundinni og horfa skammt fram á veg, en þegar um er að ræða svo stórt mál sem náttúruverndarlög fyrir íslenska náttúru þá stillum við saman strengi. Við gerðum það, feikilega harðsnúinn og góður hópur minnihlutafólks í umhverfis- og samgöngunefnd sem kom vel undirbúinn og vel lesinn til leiks þar sem við vorum algjörlega klár á því um hvað hver einasta grein snerist. Það flýtir fyrir vinnunni að fækka álitamálum, að efasemdir séu sem fæstar, að misskilningur sé ekki fyrir hendi og að við séum sammála um þær forsendur sem við erum að ræða málin út frá. Sú staðreynd eyðir auðvitað ekki þeim veruleika að við vorum ósammála í stórum málum, þ.e. meiri hlutinn og minni hlutinn og stundum ekkert endilega meiri hluti og minni hluti heldur aðrir sem voru ósammála um stór mál.

Hér ræddu hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, og hv. þm. Róbert Marshall mál sem laut að utanvegaakstri. Það var kannski það sem út af stóð í breytingartillögu okkar í minni hlutanum og er eitt dæmi um slíkt mál sem ég held að við hefðum náð að leiða til lykta ef við hefðum haft lengri tíma og ef nefndin hefði farið brattar í vinnuna á fyrstu stigum af því að við settum undir okkur hausinn á síðustu tíu dögum. Sá sprettur hefði þurft að byrja fyrr. Þá hefðum við náð saman um þetta atriði eins og hin. Ég er sannfærð um það.

Mig langar að nefna nokkur efnisleg atriði og þá í fyrsta lagi þau sem lúta að varúðarreglunni. Það er alveg ljóst, eins og hér hefur komið fram, að innleiðing og framsetning varúðarreglunnar er umfjöllunar- og umræðuefni millum fræðimanna sem vinna á þessu sviði. Það er líka jafn ljóst að það er ekki til einn skilgreindur, skýr og óumdeildur skóli í þeim efnum. Við urðum þess áskynja í vinnu nefndarinnar og á köflum vorum við eins og doktorsnemar í varúðarrétti í vinnunni í nefndinni þegar við vorum komin mjög djúpt í bæði skilgreiningar og skilning á einstökum atriðum. Ég tel að nefndin hafi náð að sammælast um það að varúðarreglunni, sem við erum að setja, ekki bara í náttúruverndarlög heldur líka í skipulags- og mannvirkjalög, sé ætlað að virka. Það var sameiginlegt markmið okkar og eftir nokkra yfirlegu og vangaveltur varð þetta leiðin, sú sem er kynnt í frumvarpinu. Hún er önnur en farin var í lögum nr. 60/2013. Sú leið varð niðurstaða þeirrar vinnu, en um þá leið sem hér er farin er ákveðið samkomulag og ákveðin sátt.

Það gildir um aðferðafræðina, eins og alla aðra þætti þessa frumvarps og þessa máls, að ef að við hefðum verið færri og einsleitari hópur þá hefði niðurstaðan kannski orðið önnur. En það er ekki umfjöllunarefni okkar hér, heldur að kynna til sögunnar sameiginlega, þverpólitíska og þverfaglega niðurstöðu.

Varðandi umfjöllunina um almannaréttinn finnst mér afar mikilvægt að við höldum því til haga að nefndin gerir nokkrar breytingartillögur sem öllum er ætlað að styrkja almannaréttinn en horfist um leið í augu við það að viðfangsefnið er of umfangsmikið til að hún geti lokið því á þeim stutta tíma sem hún hefur haft. Af þeim sökum var ákveðið að fara leið bráðabirgðaákvæðis þar sem ráðherranum er falið að hefja vinnuna er snýr að því að meta, skilgreina og koma í lög, þá væntanlega undir sama þverpólitíska flagginu og okkur hefur lánast að vinna hingað til, með hvaða hætti löggjafinn á Íslandi vill sjá samspil hins forna almannaréttar, náttúruverndar á Íslandi og vaxandi ferðaþjónustu. Þetta samspil þarf að leiða til lykta og við þurfum að ná samkomulagi um það. Við núverandi réttarástand verður ekki unað til lengri tíma. Það er algerlega ljóst. Þar eru of mikil álitamál og of mikið um árekstra. Alla þessa þætti þurfum við að leiða til lykta. Ef okkur lánast að gera það áfram í svipuðum anda og við höfum unnið hingað til þá held ég að engin nefnd sé betur til þess fallin en umhverfis- og samgöngunefnd sem ætti að fá sem flest verkefni tel ég vera. [Hlátur í þingsal.]

Mér fannst ágætt þegar ég hlustaði á útvarpið á dögunum og einhver sagði: Ferðamaðurinn er ekki lengur gestur á Íslandi. Nú er það orðið svo að ferðamaðurinn er í raun og veru viðvarandi íbúi á Íslandi. Við þurfum að hætta að líta svo á að það sé tímabundið ástand sem við séum að tala um þegar ferðamaðurinn kemur til Íslands því að það er viðvarandi staða að ferðamaðurinn er íbúi með okkur hinum. Með því að hugsa það þannig held ég að við nálgumst þetta á nýjan hátt. Þá er ég ekki bara að tala um samspil við náttúruna heldur ekki síður varðandi skipulag og uppbyggingu þéttbýlissvæða og þá ekki síst höfuðborgarsvæðisins.

Kaflinn um akstur utan vega. Það var svo kúnstugt hið örlagaríka vor 2013, þegar við vorum í aðdraganda kosninga og þetta var eitt af heitu málunum sem voru til umfjöllunar, að það var eins og akstur utan vega væri stærsta baráttumál stórs hluta þjóðarinnar. Ég held að það hafi sjaldan gerst í pólitískri sögu undanfarinna ára að birst hafi eins margar heilsíðuauglýsingar í lit í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga um eitt tiltekið mál eins og litprentaðar auglýsingar undir flagginu ferðafrelsi. Það er eins og gjarnan gerist með svona mál að í pólitískum hita dagsins varð býsna aðgengilegt að gera náttúruverndarlög að einhverri sérstakri grýlu sem snerist um að loka hálendinu fyrir öllum. Sú sem hér stendur átti að vera við þann hræðilega rauða takka sem snerist um að loka hálendinu fyrir öllum. Það passaði ágætlega inn í ákveðna ímynd að kona væri gengin af göflunum og væri á móti framförum og hagvexti því að það væri í stíl við það að til stæði að loka hálendinu. Það var dálítið snúið að ná einhverju viti í umræðuna sem gerði það að verkum að þessi kafli varð sérstakur núningsflötur í umræðu um náttúruverndarlög vorið 2013. Síðan hefur það komið á daginn í vinnunni sem á eftir fylgdi hjá umhverfisráðuneytinu, sem tók það að sér að vinna á grundvelli nefndarálitsins vorið 2014, að það var ekki mikill efnislegur ágreiningur um það að að jafnaði ætti að banna akstur utan vega nema sérstakar ástæður væru til þess og þá þyrfti að gefa undanþágu með einhverju móti, annað gilti um bændur o.s.frv. Við vorum held ég aldrei að tala um neitt annað.

Hins vegar snerist núningsflöturinn miklu frekar um það hvernig og með hvaða hætti ætti að halda utan um skráningu slóða á Íslandi, hvar mætti aka og hvar mætti ekki aka. Þar held ég að bæði með kaflanum eins og hann var í lögunum 2013 og með þeim breytingum sem lagðar eru til hér hafi tekist að ná ágætlega utan um þau mál sem eru miklu frekar hagnýts eðlis en pólitísks eðlis.

Þetta er dæmi um það að þegar dregur nær kosningum þá geta menn misst sjónar á efnisatriðum máls og farið að henda þeim sprekum á kosningabálið sem vænlegust eru til þess að snarki hressilega í. Það var svolítið það sem gerðist þarna en mér sýnist það vera til lykta leitt í meginatriðum. Við í minni hlutanum gerum þó þá tillögu sem hv. þm. Róbert Marshall gerði grein fyrir að við teljum mikilvægt að það komi fram í lagatextanum að heimilt sé vegna starfa við landbúnað ef nauðsyn krefur að aka utan vega utan miðhálendisins, enda hefur sá hluti textans verið í öllum fyrri textum. Hann var í gildandi reglugerð sem gefin var út 2005 á grundvelli laganna frá 1999. Hann er í frumvarpinu 2013 og í samþykktum lögum 2013, en svo allt í einu voru þessi litlu tvö orð horfin og margir aðilar bentu á það. Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og fleiri stofnanir bentu á að þetta hefði sennilega verið yfirsjón. Við ræddum þetta á lokametrunum. Ég segi ekki að menn hafi verið úthvíldir á þeim fundum en meiri hlutinn féllst þá á það að í staðinn fyrir að setja þetta inn í lagatextann, eins og eðlilegt er með öllum rökum, þá væri það sett í nefndarálit að það væri skilningur nefndarinnar að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 31. gr. laganna fæli ekki í sér útvíkkun á heimild til aksturs utan vega. Þetta urðu ein 12–14 orð í nefndaráliti í staðinn fyrir að skella bara tveimur í lagatexta en látum það liggja á milli hluta. Við ætlum að láta á það reyna hér í þingsal hvort að við erum ekki almennt á því að hafa löggjöfina sem gagnsæjasta og að lögskýringargögnin séu sterkust í lagatextanum sjálfum. Við förum yfir það síðar í atkvæðagreiðslu og umræðu.

Varðandi sérstaka vernd og C-hluta náttúruminjaskrár held ég að það sé afar mikilvægt að við leggjum hér til að almannahagsmuni þurfi svo að heimilt verði að raska minjum á C-hluta náttúruminjaskrár. Hér erum við að styrkja vernd C-hlutans frá því sem var í frumvarpi ráðherra þannig að það þurfi meira en fjárhagslega hagsmuni heldur þurfi víðtæka samfélagslega hagsmuni til þess að raska minjum á C-lista. Einnig varðandi minjarnar sem njóta sérstakrar verndar: Í staðinn fyrir að segja að forðast skuli röskun þeirra eins og kostur er segjum við: Forðast skuli röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Það má segja þá að við séum að herða nokkuð á vernd þeirra náttúruminja umfram það sem er í frumvarpi ráðherra þó að ekki sé gengið eins langt og var í lögunum nr. 60/2013. Þetta er millileið en þó réttarbót frá gildandi rétti.

Við bættum líka inn kafla um friðlýsingu sérstakra vatnakerfa. Lagt hafði verið til af hálfu ráðherra að sá kafli yrði tekinn út en það liggur fyrir að eitt sérstæðasta einkenni íslenskrar náttúru eru víðáttumikil, ósnortin vatnakerfi þar sem rennsli er óraskað. Það eru mjög fá vatnakerfi í Evrópu sem standa algerlega ósnortin og íslensk lindasvæði eru hugsanlega einstök á heimsvísu. Það er mikilvægt, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að náttúruverndarlög endurspegli þá sérstöðu sem er í raun og veru á heimsvísu. Sú breyting var gerð.

Virðulegi forseti. Mér sýnist að tíminn sé nánast að hlaupa frá mér. Ég hefði gjarnan viljað ræða betur um einstaka þætti og þær breytingar sem við gerðum í meðförum nefndarinnar að því er varðar til að mynda vernd birkiskóga þar sem vísað er í nefndarálit í skýrslu umhverfisráðuneytisins frá 2007, Vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga. Til að styrkja þær skilgreiningar sem þar eru er vísað í þá yfirferð og fleiri slíkir þættir eru hér undir.

Mig langar að lokum að þakka sérstaklega félögum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vona að enginn verði spældur þó að ég þakki sérstaklega félögum mínum í minni hlutanum vegna þess að við höfum unnið sérstaklega vel saman í þessu máli eins og svo ótalmörgum öðrum umhverfis- og náttúruverndarmálum. Það er ómetanlegt fyrir málaflokkinn að eiga samstilltan hóp sem er lítið upptekinn af flokkspólitískum línum þegar kemur að því að passa upp á náttúruvernd á Íslandi. Það er mikill ávinningur fyrir náttúruverndar- og umhverfismál að eiga slíkt lið.