145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:47]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telur, og nú er ég náttúrulega að koma nýr að þessu, fyrirgefið, miðað við lýsingu í nefndaráliti á náttúruspjöllum einhvern tímann mögulegt að utanvegaakstur geti átt sér stað. Í annan stað varðandi tillögu minni hlutans: Er það ekki réttur skilningur hjá mér að á miðhálendi Íslands sé búið að banna allan utanvegaakstur alltaf og þar með komið í veg fyrir alla smölun á fjórhjólum og sexhjólum? Þá langar mig til að spyrja um sérákvæðið um eftirlitið þar sem talað er um ef ekki verði við komið að ná gripum með öðrum hætti. Telur þingmaður að þær aðstæður myndist yfir höfuð einhvern tímann á miðhálendi Íslands að við getum ekki náð gripum öðruvísi en á vélknúnum tækjum? Hvernig höfum við gert það í 1.100 ár ef þessi skilyrðing á einhvern tímann við?