145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefði auðvitað átt að sitja við hliðina á mér í þessu máli í umhverfis- og samgöngunefnd vegna þess að við erum alveg sammála í þeim efnum. Í 1.100 ár hafa menn einmitt getað sótt sauðfé hvar sem er á Íslandi án þess að nota til þess sérstök ökutæki. Ég hefði glaður viljað taka þá undanþágu út úr ákvæði um utanvegaakstur, svo því sé rækilega til haga haldið hér. En þetta er afrakstur málamiðlunar og það er oft þannig í slíkri vinnu að menn þurfa að sætta sig við að hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og þeir vilja sjálfir.

En svo ég svari spurningunni alveg skýrt þá tel ég bændur geta smalað án þess að nota til þess sérstök ökutæki en það er að minnsta kosti búið að binda inn að það megi ekki gera þannig að af hljótist náttúruspjöll. Og það er búið að setja nákvæmlega niður á blað hvað teljast vera náttúruspjöll. Menn þurfa að hafa það í huga. Það má ekki mynda slóða, það má ekki skemma gróður. Það mega ekki vera sýnileg ummerki um þennan akstur.