145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:55]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Sögulegum áfanga er náð þegar við sjáum fyrir endann á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013. Frumvarpið, ef samþykkt hlýtur, verður þá að lögum á sunnudaginn 15. nóvember næstkomandi. Það er mjög ánægjulegt að þetta mál skuli brátt vera í höfn. Það er gott fyrir íslensk stjórnmál og gott fyrir íslenskt samfélag.

Starfið í umhverfis- og samgöngunefnd í þessu flókna og umfangsmikla máli hefur gengið vel og sá andi hefur svifið yfir vötnum að menn ætluðu sér að reyna að ná sátt um þessa mikilvægu löggjöf.

Ég vildi reyndar óska þess að svona væri þetta í fleiri ágreiningsmálum hér á hinu háa Alþingi, en mér finnst menn oft og tíðum fljótir að fara í skotgrafirnar og láta ágreininginn taka völdin og missa þannig sjónar á því sem skiptir máli.

Virðulegi forseti. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á því hvernig menn horfa á mikilvægi náttúrunnar, ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan. Það var árið 1972 að ráðstefna um vernd umhverfisins í Stokkhólmi markaði tímamót í umhverfismálum. Hún var fyrsta stóra alþjóðlega ráðstefnan á þessu sviði. Í kjölfarið var umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna stofnuð sem síðan hefur verið leiðandi í alþjóðlegum umhverfismálum.

Árið 1992 urðu önnur mjög merk tímamót í umhverfismálum. Þá var haldin heimsráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro í Brasilíu. Á þá ráðstefnu mættu um 100 þjóðarleiðtogar og aldrei fyrr í sögunni höfðu mætt jafn margir leiðtogar á einn fund, sem segir sitt um hversu mikilvægt mál var hér á ferðinni. Þar var samþykkt svokölluð Ríó-yfirlýsing sem fræg er orðin þar sem fram koma grundvallarreglur í umhverfismálum. Hugtakið sjálfbær þróun var sett í öndvegi í samþykktum Ríó-ráðstefnunnar, en í því felst að efnahagsleg og félagsleg velferð mannsins er byggð á vernd umhverfisins og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda.

Í frumvarpinu sem við ræðum hérna ætla ég að gera stuttlega grein fyrir varúðarreglunni, almannarétti og utanvegaakstri og einnig friðun heilla vatnakerfa, í ræðu minni.

Fyrst um varúðarregluna. Breytingartillögur nefndarinnar miða að tvennu í þeim efnum. Annars vegar að tilgreina nákvæmlega hvenær varúðarreglan á við og hins vegar hvernig eigi að beita henni. Lagt er til að reglan gildi um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli náttúruverndarlaga og á grundvelli skipulags- og mannvirkjalaga þegar um ákvarðanir um framkvæmdir sem raska vistkerfum og jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar er að ræða.

Þannig eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um veitingu undanþágu frá banni við akstri utan vega, um undanþágu frá ákvæðum friðlýsingar og undanþágu frá ákvæðum auglýsingar um friðun og breytingar á skipulags- og mannvirkjalögum eins og áður segir.

Hvað almannaréttinn snertir þá má flokka það sem telst til almannaréttar í dag í tvennt. Annars vegar er um að ræða almennan umferðarrétt almennings um landið og hins vegar rétt almennings til frjálsrar farar til að njóta náttúru og útiveru í landinu. Almennur umferðarréttur almennings felst að mestu leyti í lagaumgerð um samgöngumál og samgöngumannvirki. Í náttúruverndarlögum hefur verið fjallað um rétt almennings til að njóta náttúrunnar frá því að sérstök náttúruverndarlög voru fyrst sett. Almannarétturinn á sér djúpar rætur í löggjöf Íslendinga og það að almenningi hefur almennt verið frjálst að fara um landið og dvelja í lögmætum tilgangi að því gefnu að gengið sé vel um náttúruna og landeigendum og öðrum rétthöfum sýnd full tillitssemi.

Á undanförnum árum hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega á Íslandi og nú er ferðaþjónustan orðin einn öflugasti og mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega. Rannsóknir og kannanir sýna að meiri hluti þessara ferðamanna sem hingað sækja landið heim kemur til að njóta náttúrunnar sem Ísland hefur upp á að bjóða, þessarar einstöku ósnortnu náttúru, þessum miklu víðernum o.s.frv. Þetta er þess vegna nýr veruleiki og breyting frá þeim aðstæðum sem uppi hafa verið hér á landi. Þess vegna er mjög brýnt að landsmenn taki afstöðu til náttúruverndar í tengslum við þessa miklu fjölgun erlendra ferðamanna og mikilvægt að reglur náttúruverndarlaga komi til skila þeirri náttúruvernd sem nauðsynleg er í þessu ljósi.

Af umsögnum sem bárust nefndinni við umfjöllun um frumvarpið er ljóst að þessi mikla fjölgun ferðamanna og umferðaraukning og átroðningur á náttúruna sem þessu fylgir óhjákvæmilega er fólki mikið áhyggjuefni. Nefndin telur því afar mikilvægt að til staðar séu nógu öflug verkfæri til þess að vernda náttúruna til að aukinn ferðamannastraumur verði ekki til að raska einhvers konar þolmörkum innan samfélagsins eða innviðum þessara staða.

Nefndin ræddi nokkuð ítarlega framangreindar áskoranir sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Það er álit nefndarinnar að það sé mjög mikilvægt að halda í þennan hluta almannaréttarins sem flestum landsmönnum er afar kær og snýr að því að almenningur hafi rétt til að fara um íslenska náttúru og njóta hennar. Jafnframt hafa komið fram þau sjónarmið að þennan rétt almennings eigi lögaðilar ekki að geta fénýtt á kostnað annarra.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeirri grein laganna sem fjallar um skipulagðar hópferðir, að ferðaskipuleggjendur geti nú á grundvelli almannaréttar skipulagt hópferðir í atvinnuskyni á land annarra án þess að þurfa að leggja neitt að mörkum til verndar þess svæðis eða til uppbyggingar innviða þess. Heimildir landeigenda og rétthafa lands til að takmarka slíka markaðssetningu eru þröngar og aðeins í verndarskyni en ekki til dæmis til að takmarka ónæði. Það er því ljóst að fara þarf í gegnum öll þau mál er snerta almannaréttinn.

Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að umhverfis- og auðlindaráðherra vinni, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, að frumvarpi um ný ákvæði sem taki nákvæmlega á þessu atriði og að það frumvarp skuli lagt fram á þingi í síðasta lagi haustið 2017.

Annað atriði sem við tókum til ítarlegrar meðhöndlunar í nefndinni er akstur utan vega. Slíkur akstur getur að sjálfsögðu valdið mjög miklum skemmdum á náttúru landsins. Það þarf að vera víðtækt samkomulag í þjóðfélaginu um að vinna að því að koma í veg fyrir slíkan akstur. Maður finnur það alveg að almenningsálitið hefur breyst mjög mikið þegar kemur að utanvegaakstri, sérstaklega með þeirri fjölgun ferðamanna sem hefur orðið hér á landi. Við sjáum að hjólför í grónu landi hverfa ekki svo árum og áratugum skiptir þegar þau eru einu sinni komin og kallast ekkert annað en náttúruspjöll.

Mig langar að lokum að gera að umræðuefni friðlýsingu heilla vatnakerfa en í 27. gr. frumvarpsins er lagt til að 55. gr. laganna falli brott í heild sinni. En í 55. gr. er fjallað um friðlýsingu heilla vatnakerfa eins og áður sagði og er ráðherra þar heimilað að friðlýsa heil vatnakerfi, þar á meðal lindasvæði og lítt snortin ámiðluð vatnasvið. Áskilið er að viðkomandi svæði hafi ekki verið flokkað í nýtingar- eða biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, samanber lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það teljist rökrétt að friðlýsingar heilla vatnakerfa geti verið framkvæmdar hvort sem um er að ræða friðlönd, þjóðgarða, landslagsverndarsvæði eða verndarsvæði með sjálfbæra nýtingu. Í 25. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við nýjum flokki friðlýstra svæða, þ.e. verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Flokkun laganna á friðlýstum svæðum byggist almennt á flokkun Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Þar eru friðlýst svæði flokkuð í sex flokka og sjötti flokkurinn er verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. En heil vatnakerfi eru ekki hluti af flokkun Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram nokkrar athugasemdir við það að þessi grein laganna yrði felld brott og bent á að það væri mjög mikilvægt að ráðherra hefði þessa heimild þar sem mjög sérstakar og verðmætar auðlindir væru hér á landi. Þær felast í víðáttumiklum ósnortnum vatnakerfum þar sem rennsli er óraskað og ekki breytt á leið til sjávar og þar með vatnalífríki sem myndar náttúrulega samfellu. Ástæða sé til að gera heilum, ósnortnum vatnakerfum hátt undir höfði í lögum sem þessum þar sem um einstæða auðlind er að ræða og að fá vatnakerfi í Evrópu standi nú eftir algjörlega ósnortin eins og íslensk lindasvæði sem eru líklega einstök á heimsvísu.

Með framangreind sjónarmið í huga leggur nefndin til að fallið verði frá breytingunni sem frumvarpið feli í sér og ákvæði um friðlýsingu heilla vatnakerfa í 55. gr. laganna standi.

Kröfur um lífsgæði hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Nú er gerð krafa um heilnæmt umhverfi, örugg matvæli, aðgang að svæðum til útivistar og óbyggðum víðernum þar sem sífellt fleiri ferðamenn sækja landið heim og segja að það sé það eftirsóknarverðasta sem þeir fá notið þegar þeir koma til Íslands, þ.e. hin ósnortna náttúra. Það er einmitt með þetta í huga, og ekki síst fyrir okkur sjálf sem í þessu landi búum og viljum skila verðmætum til komandi kynslóða, sem þessi lög, sem vonandi taka gildi eftir fáa daga, eru mjög mikilvæg.

Ég fagna þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom fram með um að óheimilt sé að skilja eftir sorp og úrgang í náttúru Íslands. Þetta er reyndar breytingartillaga sem hann síðar dregur til baka og ég held að það sé skynsamlegt vegna þess að það hefur verið unnið af mjög miklum krafti í þessu máli og í því að komast að niðurstöðu. Mér hefði fyrir mitt leyti þótt betra að geta kallað til hagsmunaaðila sem tengjast þessari breytingartillögu og hlusta á rök með og á móti og það er augljóst að ekki er tími til þess.

Ég er ánægð með að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra segir að þetta mál verði unnið hratt þannig að við komum þessu ákvæði inn í lögin, eða hvernig svo sem við gerum það; þetta eru auðvitað mikilvæg atriði hvað varðar sorp og úrgang sem skilin eru eftir í náttúrunni og viðurlög við slíkri umgengni.

Að lokum langar mig til að þakka kærlega fyrir starfið í nefndinni í þessu máli sem mér þótti vera afar gott. Þar vil flytja öllum nefndarmönnum þakkir, meiri hluta, minni hluta, formanni nefndarinnar, nefndarritara. Ég verð að segja að með slíkum vinnubrögðum á Alþingi þá hlakka ég til að leiða fleiri mál, sem miklar skoðanir eru á en eru mikilvæg fyrir okkar samfélag, til lykta þannig að sátt megi takast. Þrátt fyrir að menn vilji oft fá sínu ýtrasta framgengt þá er það bara þannig í samfélagi eins og okkar að við mætumst á miðri leið og yfirleitt er það góð leið og allir fara sáttir frá borði. Ekki það að einhver fari sáttari en hinn eða hafi getað náð einhverju af mótherjanum heldur að báðir fari sáttir frá borði. Það er lokatakmarkið.