145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa talað við þessa umræðu þakka fyrir samstarfið í umhverfis- og samgöngunefnd við vinnslu þessa máls, bæði samstarf innan nefndarinnar og samstarf við aðra sem að málinu koma, ráðuneyti, umsagnaraðila o.fl. Ég vil um leið taka undir orð annarra nefndarmanna sem hafa talað við umræðuna um það að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir er út af fyrir sig ánægjuleg sátt í máli sem hefur verið mjög umdeilt í langan tíma. Síðari hluta síðasta kjörtímabils var þetta eitt af helstu átakamálum í þinginu, á árunum 2012 og 2013, og við upphaf þessa kjörtímabils stefndi í að áfram yrði deilt um málið.

Ég ætla ekki að halda því fram að með því að þetta frumvarp nái fram að ganga verði ágreiningi eða deilum um málefni af þessu tagi lokið. Auðvitað verða áfram núningsfletir sem varðar þessa löggjöf og aðra sem snerta íslenska náttúru og nýtingu hennar. Ég held þó að við getum litið svo á að með samþykkt þessa frumvarps verði stigið skref og komist fyrir verulega hindrun í því að menn geti unnið saman að þeim markmiðum sem að er stefnt.

Náttúruvernd er gríðarlega mikilvæg út frá sjónarhóli okkar Íslendinga vegna þess lands sem okkur hefur verið trúað fyrir og eins í víðara samhengi. Náttúruverndarlög eru gríðarlega mikilvæg til að setja fram þær grundvallarreglur sem virða ber í umgengni um náttúruna. Það eru margir þættir í þeim sem hafa snertingu við daglegt líf fólks og eins við stjórnsýslu og ákvarðanatöku á hinum ýmsu stigum. Það er því vissulega um að ræða löggjöf sem mikið mæðir á, mikið reynir á og hefur mikilvægt hlutverk. Á sama hátt og við getum verið sammála um að verndun náttúrunnar sé mjög mikilvægt markmið sem stuðla beri að og löggjafanum beri að stuðla að þá verður löggjöfin líka að vera þannig úr garði gerð að hún standi ekki í vegi fyrir því sem við getum kallað eðlilega umgengni um náttúruna, eðlilega nýtingu náttúrunnar. Þar er auðvitað alltaf um ákveðna jafnvægislist að ræða. Við höfum í starfi nefndarinnar leitast við að finna þetta jafnvægi og ég vona að við höfum náð því á mörgum sviðum. Sum atriðin eru þannig að þau munu þurfa frekari skoðunar við. Við getum þess til dæmis í niðurstöðu okkar í nefndarálitinu að þeim ákvæðum sem varða almannarétt og það jafnvægi sem þarf að finna á því sviði er vísað til framtíðar. Gert er ráð fyrir því að umhverfisráðherra í samstarfi við ráðherra ferðamála skili tillögum í síðasta lagi haustið 2017 á því sviði þannig að við fullmótum ekki þær hugmyndir sem þar þurfa að koma til og þau sjónarmið sem þar þarf að taka tillit til.

Við erum með þrenns konar sjónarmið sem þarf að hafa til hliðsjónar. Það er almannarétturinn sem hefur verið meginregla í íslenskum rétti lengi. Svo eru það hagsmunir landeigenda sem styðjast vissulega við eignarréttarsjónarmið sem eru mikilvæg. Síðan kemur þriðja atriðið inn í af auknum þunga, getum við sagt, á undanförnum árum sem er gríðarlegur ferðamannafjöldi og mikið umfang ferðaþjónustu sem breytir auðvitað myndinni töluvert mikið þegar kemur að spurningum sem varða frjálsa för fólks um landið. Þetta eru atriði sem við vísum í meginatriðum til framtíðar og gerum þá ráð fyrir að sá réttur verði í meginatriðum ríkjandi á því sviði sem verið hefur frá gildistöku laganna frá 1999. Ýmsum kann að þykja að spurningum sé ósvarað, en við tókum þá ákvörðun að vísa þessu til ráðherranna á þeim forsendum að þarna væri um sérstakt viðfangsefni að ræða þar sem miklar breytingar hefðu orðið á síðustu árum. Til að tefja ekki fyrir framgangi málsins tókum við þá ákvörðun að vísa þessu í þennan farveg.

Þetta er eitt af því sem var umdeilt í aðdraganda setningar laganna nr. 60/2013 og þessu frumvarpi er ætlað að breyta. Það voru atriði sem vörðuðu almannaréttinn. Önnur atriði sem voru helst umdeild, eins og menn þekkja af umræðunni, var varúðarreglan. Í þessu frumvarpi og með þeim breytingum sem nefndin leggur til er verið að breyta henni töluvert mikið. Það má halda því fram með rökum að verið sé að þrengja og afmarka betur gildissvið reglunnar. Hún er jafnframt skrifuð inn í lögin með skýrum hætti á þeim stöðum þar sem hún á að skipta mestu máli. Varúðarreglan verður með þeirri breytingu sem hér er lögð til skýrari á þeim sviðum þar sem hún á við og henni þarf að beita en gildissviðið að sönnu þrengra.

Það var líka fjallað töluvert um akstur utan vega. Aðrir ræðumenn hafa farið ágætlega yfir þann þátt. Sama má segja um aðrar breytingar sem í frumvarpinu felast, t.d. þá sem lýtur að mögulegri verndun heilla vatnasvæða. Fjallað hefur verið um atriði sem varða sérstaka vernd. Það er ástæða til að geta þess að breytingar sem ákveðnar voru með lögum nr. 60/2013 eru að sumu leyti endurskoðaðar í þessu frumvarpi. Varúðarreglan er sett inn þar sem hún á að skipta máli, þ.e. þegar um er að ræða þær jarðmyndanir og vistkerfi sem sérstaka verndin á að ná til, en um leið er þeim kröfum breytt sem þarf að hafa til hliðsjónar þegar ákveðnar eru einhverjar framkvæmdir sem hafa áhrif á náttúrufyrirbæri eða vistkerfi. Að mínu mati leiðir niðurstaðan varðandi sérstöku verndina til þess að þær reglur sem þar eru settar verða raunhæfari og betur til þess fallnar að unnt verði að framkvæma þær og vinna með þær. Þetta var, eins og menn þekkja, mjög umdeilt atriði þegar lög nr. 60/2013 voru sett.

Við tökumst líka á við ákvæði sem snerta framandi ágengar lífverur og reynum að nálgast það mál með raunsæishugarfari. Ég held að niðurstaðan sé sú að þeirra hagsmuna sé gætt sem þarf að gæta í því sambandi en um leið verði reglan þannig að hún sé framkvæmanleg. Auðvitað þurfum við, þegar við setjum lög á sviðum eins og þessum, að hugsa um þau markmið sem við ætlum að ná en líka að reglurnar séu þannig að hægt sé að lifa með þeim, hægt sé að vinna eftir þeim og þær séu ekki svo stífar og ósveigjanlegar eða þungar í framkvæmd að það sé ógerlegt að fylgja þeim í raun.

Ég tek undir orð einhvers hv. þingmanns sem talaði hér fyrr í dag um að frumvarpið með þeim breytingum sem nefndin leggur til — það er auðvitað ekki eins og ég hafi skrifað það einn og það á við um hvert og eitt okkar sem eigum sæti í umhverfis- og samgöngunefnd — væri afrakstur af vinnu sem hefði í meginatriðum gengið vel og skilað niðurstöðum sem allir ættu að geta lifað með og allir ættu að geta unnið eftir. Þegar ágreiningur hefur verið hefur hann yfirleitt verið leystur með farsælum hætti þannig að við getum staðið að þessu saman. Það er gríðarlega mikilvægt og verður vonandi innlegg í það að mál á þessu sviði, bæði sem koma til meðferðar í þinginu og annars staðar í stjórnkerfinu, verði í auknum mæli leyst á þann hátt að aðilar fari ekki jafnóðum ofan í skotgrafir þegar þau ber á góma og leiti þess í stað leiða til að vinna þau í samvinnu og finna þá fleti sem eru raunverulega sameiginlegir. Eins og komið hefur fram hjá fleiri ræðumönnum við þessa umræðu þá eru fleiri þættir sem sameina okkur í þessum málum en sem sundra okkur.