145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil undir lokin þakka öllum þeim sem tóku til máls fyrir góðar umræður. Ég held að það hafi verið drepið á öllum álitamálum eða vel flestum þeirra í umræðunum. Ég flutti ræðu við upphaf þessa þingfundar þar sem ég vék í rauninni að helstu stóru málunum, en að sjálfsögðu koma mörg önnur einnig til skoðunar.

Það sem skiptir aðalmáli er að mínu mati: Erum við að senda frá okkur góða og vandaða löggjöf? Þegar við fjöllum um náttúruvernd og allt það sem snýr að henni þá held ég að aðalatriðið sé að löggjöfin komi með skýrar leiðbeiningar um hvernig eigi að beita lögunum, það sé margrætt og útskýrt ef vafi leikur á þannig að enginn eigi að velkjast í vafa um hvað það er sem sátt hefur náðst um eða menn eru á einu máli um.

Sumir segja að það hafi náðst sátt um ýmis atriði og það er rétt. Það náðist sátt um mörg atriði, en nefndarmenn voru líka sammála um mjög mörg atriði og ég vil halda því sérstaklega til haga. Það hefur farið fram gríðarlega mikil vinna á löngum tíma og margir komið að. Ég held að við höfum algjörlega tæmt öll sjónarmið, þ.e. hleypt öllum sjónarmiðum að, fengið alla umsagnaraðila og meira að segja ef einhverjum hefur fundist eitthvað upp á vanta þá höfum við ekki hikað við að kalla þá aftur til nefndarinnar til að ræða það. Það fengu ekki allir sitt eins og gengur en ég segi að lokum að náttúruverndarlög eru lög sem Íslendingar eiga að geta búið við að mínu mati til langrar framtíðar. Þau verða okkur vonandi bautasteinn þegar við tökumst á við nýjan veruleika aukinnar ferðamennsku og þar sem sífellt fleiri vilja standa sterkan vörð um hina fallegu náttúru Íslands.