145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

framlög til Aflsins á Akureyri.

[10:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um Aflið á Akureyri. Mér finnst frekar óþolandi að þurfa alltaf að vera að fjalla um svona litla fjárlagaliði, getum við sagt, þegar við eigum að vera að horfa á stóru myndina, en staðan er þannig að vinnubrögðum var breytt á þann veg að safnliðir fóru til ráðuneytanna og ég er sammála þeirri breytingu, mér finnst gott að ráðuneytin sjái um safnliði og einhver fagleg umsýsla sé hjá þeim. En hins vegar verðum við þingmenn að fá svör þegar við óskum eftir því, til dæmis um Aflið á Akureyri sem eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Þau fá afar litla fjármuni úr ríkiskassanum, um 3 milljónir á ári held ég. Öll sveitarfélög í nágrannabyggðum hafa stutt Aflið og sent frá sér bókun hvað það varðar. Ég vil helst ekki þurfa að koma hér rétt fyrir jólin með einhverja breytingartillögu, jafnvel um að setja nýjan fjárlagalið í fjárlögin. Ég er viss um að ég get sannfært þingheim og Alþingi og löggjafarvaldið um að við eigum að styrkja þessi samtök frekar, ég get gert það með ýmsum ráðum sem mér finnst ekki endilega fagleg. Ég mundi vilja að ráðuneytið sæi um þetta. En ég verð að spyrja ráðherra: Er ætlunin að styðja betur við þessi samtök? Ef ekki, hvers vegna ekki?

Við erum örugglega sammála, ég og hæstv. ráðherra, um að það á að gera kröfu til allra þeirra sem fá fjárframlög. Ef það er eitthvað í starfsemi Aflsins sem veldur einhverjum vandkvæðum eða spurningarmerkjum hjá hæstv. ráðherra er sjálfsagt að gera kröfur um að bæta þar úr. En ég vil benda á að samtök sem hafa 3 milljónir til umráða hafa ekki einu sinni efni á að ráða starfsmann í hálft starf þannig að faglegt starf getur verið erfitt. (Forseti hringir.) Ég óska eftir svörum við þessu.