145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða heilsugæslustöðva og heimilislæknar.

[10:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér hefur verið hugleikin staðan hjá heilsugæslustöðvunum í Reykjavík og einnig víða um land. Hún hefur lítið verið rædd en þar sem við erum núna með fjárlögin á borði þingsins og erum að fara í gegnum einstaka liði þess langaði mig að heyra hver stefna hæstv. heilbrigðisráðherra er varðandi það neyðarástand sem ríkir á heilsugæslustöðvunum.

Mig langaði líka að spyrja um þessa stefnu í ljósi þess að það hefur verið ótrúlega mikil fækkun í þeirri starfsstétt sem vinnur á heilsugæslustöðvunum, þ.e. hjá heimilislæknum. Aldurssamsetningin er þannig að mjög stór hluti þessara lækna, en heimilislæknaþjónustan er fyrsta snerting almennings áður en lengra er haldið inn í heilbrigðiskerfið, er að fara á eftirlaun. Ástandið er orðið háskalegt og þetta er mjög dýrt fyrir samfélagið í heild og þetta er mjög vont fyrir almenning því að það eru svo margir hérlendis sem hafa ekki heimilislækni. Fólk bíður ekki bara í nokkur ár heldur áratugum saman án þess að hafa fastan heimilislækni.

Þó að settar hafi verið á fót einkareknar heilsugæslustöðvar þá er aldurssamsetningin hjá heimilislæknunum þar nákvæmlega sú sama og annars staðar og jafnvel verri. Það vill svo til að mín heilsugæslustöð er einkarekin og það er alveg jafn erfitt að fá heimilislækni þar eins og annars staðar. Þannig að vandamálið hlýtur að liggja í því að starfið þyki ekki nógu spennandi eða nógu öruggt og það sé of erfitt. Þetta hefur jafnvel byrjað þegar settir voru kvótar á sjúklinga á sínum tíma.

Mig langar því að spyrja um stefnu ráðherrans í þessum málaflokki.