145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða heilsugæslustöðva og heimilislæknar.

[10:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Málefni heilsugæslunnar eru mjög mikilvæg og full þörf á að ræða þau. Það er engin launung á því að ég tek að nokkru leyti undir áhyggjur hv. þingmanns sem snerta aldurssamsetningu heimilislækna í landinu. Það er klárlega mjög hröð öldrun þar og fram undan mikil skipti. Ég vil þó upplýsa það hér að sennilega höfum við aldrei verið að mennta jafn marga sérfræðinga í heimilislækningum á Íslandi eins og nú um stundir, hvernig svo sem það skilar sér hingað. Ég veit það ekki. Við höfum reynt að mæta óskum heimilislækna með ýmsum hætti. Ég vil nefna sérstaklega fjölgun á námsstöðum lækna við heilsugæsluna. Við höfum verið líka að færa út heimildir vegna námsstaðnanna til heilsugæslunnar frá miðlægri ákvörðun þannig að heilsugæslan hafi meira frelsi til að spila úr því þar.

Ég vil nefna líka atriði sem vissulega telja en að margra mati telja ekki nægilega þungt í fjárlagafrumvarpi næsta árs þar sem við gerum ráð fyrir styrkingu í heimilislæknastöðum á höfuðborgarsvæðinu, auk annarra atriða sem lúta að styrkingu heilsugæslunnar sem eru heimahjúkrunin og síðan sálgæslan þar inni.

Ég kannast hins vegar ekki við það að það séu einhverjir kvótar á sjúklingum. Það er uppi ákveðinn ágreiningur milli lækna og stjórnvalda um það hversu marga sjúklingar eigi að telja til hvers læknis, en sá fjöldi er líka mjög breytilegur eftir stöðum.

Við erum núna, svo ég komi að því undir lok máls míns, að undirbúa fjölgun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli þeirra fjárheimilda sem (Forseti hringir.) eru í fjárlagafrumvarpinu og get ég komið aðeins nánar að því í mínu síðara svari.