145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

nýr Landspítali.

[10:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þau eru skýr að mínu mati hvað það varðar að hér verður unnið eftir því vinnuplani sem hefur verið og kemur fram í ríkisfjármálaáætlun þar sem tryggt er fé til hönnunar og síðar útboðs á meðferðarkjarnanum. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, sem ég vona að hafi verið, er inni í þessu líka tryggt fjármagn til hönnunar á rannsóknahúsinu sem mun hefjast bygging á í beinu framhaldi af meðferðarkjarnanum, þegar framkvæmdum við það lýkur. Það er mikilvægt að nota þessi ár meðan verið er að byggja meðferðarkjarnann til að fullhanna og, ef vel árar hjá okkur sem ýmislegt bendir til, að við gætum jafnvel byrjað aðeins fyrr á rannsóknahúsinu en áætlanir eru um vegna þess að það mun spara starfsemi á mörgum stöðum í staðinn.

Ég get tekið undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði um sjúkrahótelið. Ég fagna því að starfshópur hafi verið skipaður og vona að margir aðilar eigi þar aðkomu.

Ég ætla að lokum að lýsa þeirri skoðun minni, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að ég tel að það sé langfarsælast að sjúkrahótelið sé rekið af spítalanum og að spítalinn geti haft fulla umsjón með þeim rekstri.