145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

landbúnaðarháskólarnir.

[11:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður vekur hér máls á vanda sem staðið hefur yfir margt lengi og snýr að rekstri þessara tveggja háskólastofnana, annars vegar á Hólum í Hjaltadal og hins vegar Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Rekstrarvandinn endurspeglast m.a. í því að þegar litið er til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri er þar uppsafnaður verulegur rekstrarhalli og ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við þá stöðu ásamt athugasemdum sem ráðuneytinu hafa borist frá hv. fjárlaganefnd. Hólar í Hjaltadal hafa líka lengi glímt við erfiða rekstrarstöðu og endurspeglar sú staða þá staðreynd að hér er um að ræða mjög litlar stofnanir með fáum nemendum sem starfa undir löggjöf sem er ætlað að ná utan um starfsemi okkar stærstu skóla, eins og Háskóla Íslands. Það setur því þungar kröfur á þessa skóla sem erfitt er fyrir þá að standa undir.

Ég vil nota tækifærið og hrósa stjórnendum skólanna fyrir starf þeirra og allt það framlag sem hefur komið til að ná tökum á þessari stöðu. Verkefnið er sannarlega erfitt.

Nú hefur verið starfandi um nokkurt skeið nefnd undir forustu tveggja hv. þingmanna sem í eiga sæti sveitarstjórnarmenn bæði úr Skagafirði og Borgarfirði ásamt fulltrúum þessara menntastofnana. Það hefur nokkuð dregist að nefndin skili til mín tillögum sínum en ég hef fullvissu fyrir því og hef rætt það við hv. þingmenn sem eru í forustu að innan mjög skamms muni niðurstöður þeirrar nefndar líta dagsins ljós. Í framhaldinu getum við vonandi unnið áfram með þessi mál.