145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Ég ítreka að réttindi nemenda til náms í framhaldsskólum eru tiltekin í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, nánar tiltekið í 2. gr. og 32. gr. og 33. gr. Í 34. gr. eru réttindi fatlaðra nemenda sérstaklega tiltekin. Þar segir:

„Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.“

Þar segir einnig að ráðherra geti heimilað rekstur sérstakra námsbrauta fyrir fatlaða nemendur, svokallaðra starfsbrauta.

Í reglugerð nr. 230/2012 sem sett var við 34. gr. laganna kemur fram að nemendur í framhaldsskólum eigi rétt á, og ég tel hér upp, með leyfi virðulegs forseta:

„a. að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis,

b. að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska í samráði við einstaklingana eftir því sem við verður komið, samanber samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun,

c. að fá sérfræðilega aðstoð og viðeigandi búnað eftir því sem þörf krefur,

d. að veitt sé skimun og greining á leshömlun ásamt eftirfylgni og stuðningi í námi eftir því sem þörf krefur,

e. aðgangi að viðeigandi samskiptamáta, svo sem táknmáli og punktaletri, auk nauðsynlegs tækjabúnaðar, sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við á, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfsstyrkingu og félagsþroska.“

Í 23 af 31 framhaldsskóla eru nú starfræktar starfsbrautir fyrir fatlaða nemendur. Er þjónustan veitt á einstaklingsgrundvelli með einstaklingsnámskrá fyrir hvern og einn nemanda. Nær allir nemendur úr grunnskólum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda sækja brautirnar og sjaldgæft er að um brotthvarf sé að ræða af brautunum. Brautirnar eru skipulagðar til fjögurra ára þrátt fyrir að almennt nám í framhaldsskólum sé að færast í þriggja ára nám. Starfsbrautirnar hafa á að skipa fagfólki, svo sem almennum kennurum, sérkennurum, þroskaþjálfum og fleiri sérfræðingum vegna fötlunar nemenda. Er þannig leitast við að koma til móts við allar þarfir nemenda á hverjum tíma.

Ég vil líka bæta því við að ekki er aðeins um að ræða þann hóp fagfólks sem hér var talinn upp heldur er víða líka stuðst við og leitað aðstoðar annarra nemenda í skólunum sem taka að sér störf og aðstoð við þessi verkefni sem ég tel mjög til fyrirmyndar.

Menntamálaráðuneytið greiðir sérstakt framlag með nemendum á starfsbrautum á grundvelli umsókna frá framhaldsskólum sem sendar eru tvisvar á ári. Einnig er greitt sérstakt framlag vegna athafna daglegs lífs fyrir fatlaða nemendur á öðrum námsbrautum.

Við þetta er því að bæta að hér er um að ræða verkefni sem ég tel að við þurfum að gefa nánari gaum, meðal annars þurfum við að ræða betur saman milli ráðuneytanna, menntamálaráðuneytisins annars vegar og félags- og heilbrigðisráðuneytanna hins vegar, um samstarf á þessu sviði. Ég tel augljóst að með auknu samtali og samstarfi þessara ráðuneyta um þennan málaflokk ættum við að geta haldið áfram að bæta þjónustuna. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum að stefna að því og þurfum áfram að stefna að því að gera betur hvað þetta varðar. Ég tel að okkur hafi miðað mjög fram á undanförnum árum, þjónustan er betri en hún var hér áður fyrr. Það er held ég ljóst og óumdeilanlegt.

Fjöldi þeirra sem þurfa síðan á sérúrræðum að halda, m.a. vegna ADHD-greininga og annarra frávika, hefur vaxið mjög á undanförnum árum þannig að þetta er orðið kostnaðarmeira. Það kann að vera vegna þess að við erum einmitt að greina þessi vandamál betur í kerfinu og bregðast betur við en áður var, en þetta kostar allt og kallar á fjármuni sem við þurfum að beina inn í skólakerfið til að takast á við þessi verkefni. Þess vegna eru þeir fyrirvarar settir sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í sinni ágætu ræðu sem snúa auðvitað að þeim fjármunum sem Alþingi, fjárveitingavaldið, veitir til málaflokksins. Þetta er sett fram með eðlilegum hætti líkt og gert er um raunar öll önnur verkefni sem eru sambærileg við það sem hér er um að ræða.