145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég verð að segja að ég hefði viljað heyra eitthvað meira frá ráðherranum en upplestur úr lögum, reglugerðum og svari við skriflegri fyrirspurn sem þegar hefur verið dreift hér. Ég hefði viljað fá meiri hugsjónaeld í þetta mál en ekki bara tal um kostnað.

Það er rétt sem málshefjandi, hv. þm. Páll Valur Björnsson, nefndi að útskúfun fatlaðra úr íslensku samfélagi hefur því miður verið staðreynd. Það er jafnframt rétt sem hæstv. ráðherra benti á að það hefur horft til betri vegar, en við verðum að vera miklu metnaðarfyllri því að fatlað fólk í dag lítur eðlilega svo á að það eigi að eiga sömu tækifæri og aðrir í samfélaginu, enda eru það sjálfsögð mannréttindi. Þetta eru réttindi sem eru mikilvæg fyrir einstaklingana og fjölskyldur þeirra, en þetta eru líka réttindi sem eru mikilvæg fyrir okkur öll því að framlag fatlaðs fólks til samfélagsins er jafn verðmætt og framlag okkar hinna, auk þess sem samfélagið verður fjölbreyttara og víðsýnna.

Ég ætla ekki að tala um innihald námsins heldur kannski meira ADL-stuðninginn, athafnir daglegs lífs. Gerðir voru samningar við skólana þannig að þjónustan fer fram á vegum skólans. Ég tel að það eigi að skoða það að færa þá þjónustu til félagsþjónustunnar eða í lög um málefni fatlaðs fólks og hún verði á hendi sveitarfélaganna en ótengd skólabyggingunni og fylgi heldur hverjum einstaklingi, enda er þetta mjög persónubundin þjónusta sem er mikilvægt að einstaklingurinn sem í hlut á fái að hafa meira að segja um.

Þetta var það framlag sem ég vildi hafa þann stutta tíma sem ég hafði hér. Ég vona að þessi umræða leiði til umbóta í málaflokknum.