145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Í þessari stuttu ræðu minni langar mig að fara örstutt yfir hvernig skipulagið er varðandi nemendur í framhaldsskóla þar sem ég þekki aðeins til með það að markmiði að koma á framfæri því sem vel er gert. Í skólanum sem hér um ræðir er starfsbraut fyrir nemendur sem hafa fengið fötlunargreiningu. Nemendur fara í kennslustundir sem tilheyra brautinni og ýmsir starfsmenn, m.a. kennarar og stuðningsfulltrúar, sinna mismunandi getu og þörfum þeirra. Jafnframt veit ég að nemendur sem eru á hinu svokallaða gráa svæði og þurfa mikið utanumhald um námsefnið hafa fengið þjónustu brautarinnar, m.a. til að skipuleggja heimanám og halda utan um skipulag námsins. Þessi þjónusta, eins og ég hef séð hana birtast, er til mikillar fyrirmyndar. Nemendur og aðstandendur þeirra virðast ánægðir. Það er afar jákvætt og mikilvægt, eins og við vitum, því að líðan nemenda þarf að vera góð til að þeir geti sinnt daglegu lífi og stundað nám og haft ánægju og gagn af.

Í þeim tilvikum sem ég þekki til hafa nemendurnir sem eru í 10. bekk og eru með fötlunargreiningu eða á þessu gráa svæði fengið ákveðna aðlögun að framhaldsskólanum og þá sérstaklega inn á starfsbrautina. Þá voru skipulagðar nokkrar heimsóknir í framhaldsskólann á meðan nemandi var í 10. bekk. Auk þess veit ég að foreldrar og forráðamenn nemandans auk starfsmanna grunnskólans fengu fund með starfsmönnum skólans og brautarinnar. Allt er þetta gert til að gæta hagsmuna nemandans og tryggja að réttar upplýsingar berist á milli. Þetta tel ég gott ferli sem getur aukið vellíðan einstaklingsins sem um ræðir til mikilla muna.

Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir hver staðan er á landsvísu, en þetta finnst mér vera kerfi sem vert er að horfa til. Til að við getum haldið úti góðri þjónustu líkt og fram kemur í þessari ræðu þarf nægt fjármagn til málaflokksins og vil ég ítreka það hér í lok ræðu minnar.