145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:39]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og umræðuna. Einnig vil ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls fyrir innlegg þeirra í þessa gagnlegu umræðu. Ég get svo sem tekið undir með mörgum sem komu hingað upp að auðvitað hefði verið gaman að sjá svör ráðherrans einkennast af meiri hita fyrir þessu máli vegna þess að það er svo gríðarlega mikilvægt í okkar samfélagi að laga þetta.

Það hefur líka komið fram í ræðum hjá hv. þingmönnum að víða er vel gert. Það hafa orðið framfarir í þessum málaflokki. Það er enginn að tala um annað en það þurfi að gera mun betur. Það væri rosagott að fá frekari umræðu um næstu skref. Það er ljóst að það þarf að marka skýrari stefnu og aðgerðir og framkvæmdaáætlun og þá í samráði við fatlað fólk. Eitt af því sem ég hef rekist á hér undanfarin ár er að það er lítið samráð haft við þetta fólk þegar unnið er að málum þess, sem mér finnst bagalegt. Mér finnst að fatlað fólk eigi að fá að vera í meiri hluta í þeim verkefnisstjórnum og hópum sem eru að vinna að málefnum þess. Það þekkir málin best. Ekki síst þarf það að vera í samráði við framhaldsskólasamfélagið á grundvelli upplýsinga. Um það snýst kannski málið. Það eru ekki til nógar upplýsingar um stöðu mála. Það er eitt af því sem við þurfum að laga vegna þess að ef við höfum það ekki þá vitum við ekki hvert við erum að fara. Það er mikið atriði.

Við þurfum að berjast fyrir því einhvern veginn að eyða hindrununum sem þessir einstaklingar þurfa að takast á við. Tækifærin eru mörg og þau felast einkum í því að samþætta þjónustu svo að hún fylgi fyrst og fremst einstaklingum en ekki húsum. Þannig má leysa ýmis vandamál innan og utan skóla og hafa áhrif á námsmöguleika og draga úr aðgreiningu og annarri mismunun. Ein mikilvæg leið í því er að skoða hvernig notendastýrð persónuleg aðstoð getur fléttast inn í jöfnuna. Það hefur margsýnt sig á undanförnum árum að notendastýrð persónuleg aðstoð er frábært tæki fyrir fatlað fólk til þess að stunda nám og taka þátt í lífinu, en það er nú reyndar í uppnámi eins og svo margt annað.

Við þurfum að taka á þessu af miklum krafti. Ég treysti hæstv. menntamálaráðherra til að taka þennan málaflokk (Forseti hringir.) föstum tökum til að við getum alla vega staðið við skuldbindingar okkar gagnvart þessu fólki.