145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[11:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Menn geta auðvitað haft alls konar skoðanir á Ríkisútvarpinu og því hvort við eigum að hafa ríkisrekinn fjölmiðil og þar fram eftir götunum. Það er eðlilegt að eiga þá umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé þörf á ríkisreknum fjölmiðli á Íslandi, en ég er líka þeirrar skoðunar að ef við ætlum að hafa hann eigi hann að vera öflugur og sjálfstæður og eigi að geta axlað þá ábyrgð að efla lýðræðislega umræðu og vera veita fyrir menningarefni, efla íslenska menningu eins og Rás 2 hefur gert fyrir rokk- og popptónlist. Þetta er hlutverkið. Það er fullkomlega marklaust að vera með ríkisútvarp og grafa síðan hér eða annars staðar undan því.

Mér sýnist umræðan um Ríkisútvarpið hafa verið mjög ósanngjörn undanfarið. Mér fannst skýrslan sem var gefin út vond og mér finnst hana af mörgum ástæðum skorta trúverðugleika. Mér finnst hún illa gerð. Mér finnst það til dæmis ósanngjarnt að taka ekki með í reikninginn að innan RÚV er unnið mjög hörðum höndum að því að innleiða alls konar nýja tækni sem er nauðsynleg fyrir fjölmiðil í breyttu samfélagi. Mér finnst ósanngjarnt að taka það ekki skilmerkilega með í reikninginn að hallalaus rekstur hefur verið raunin á RÚV undanfarna 18 mánuði. Það hefur orðið mjög stórbrotin hagræðing, t.d. í húsnæði, og rekstrarkostnaður lækkaði á síðasta ári um 4,7%. Sala á byggingarrétti hefur leitt til mestu skuldalækkunar í sögu RÚV. Innlent efni hefur á sama tíma verið stóraukið, efni fyrir börn, innlend dagskrárgerð af öllu tagi fyrir menninguna, fyrir landsbyggðina og þar fram eftir götunum. RÚV stendur sig í stykkinu.

Hvað þurfum við að ákveða hér? Jú, að lækka ekki útvarpsgjaldið, að láta það renna óskert til Ríkisútvarpsins og gera eitthvað til að laga stórbrotinn fortíðarvanda sem felst í því (Forseti hringir.) að stofnunin er að sligast undan allt of þungum lífeyrisskuldbindingum. Getum við ekki ákveðið þetta? Er málið þá ekki bara dautt? Við erum með mjög öfluga og góða stofnun sem við getum verið stolt af og er að vinna vinnuna sína.