145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er einkennilegt að sá ráðherra sem fer með málaflokk RÚV skuli taka þátt í þeirri aðför sem nú er gagnvart þessari mikilvægu stofnun. Mér finnst það mjög alvarlegt að ráðherra standi ekki betur við bakið á RÚV. Við höfum séð aðfarir að RÚV þar sem stofnuninni hefur verið hótað því að það sem henni beri á fjárlögum verði tekið af henni ef hún haldi sig ekki við efnið í fréttaflutningi. Það er mjög alvarleg aðför að tjáningarfrelsinu og fjölmiðlafrelsi á landinu.

Af því við erum að tala um efnahagsmál er tengjast efnahag RÚV langar mig að taka undir allt það sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Mig langaði að spyrja ráðherra að nokkrum einföldum hlutum. Hver bar ábyrgð á og af hverju var eiginfjárhlutfall RÚV svona lágt þegar því var breytt í ohf.? Hvenær hefur RÚV fengið alla kökuna? Hvenær hefur RÚV fengið allan nefskattinn? Ég óska eftir því að ráðherra standi keikur og sterkur í fæturna og standi við loforðið um að RÚV fái sinn nefskatt út frá eðlilegri verðlagsþróun og ekki verði gengið á bak því sem lofað var í tengslum við útvarpsgjaldið. Það er mjög mikilvægt.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann að því hve mörg ohf.-fyrirtæki ríkisins þurfa að bera lífeyrisskuldbindingar áfram. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki rétt. En ég óska eftir því að hv. þingmaður útskýri þetta betur.