145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:07]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sú skýrsla sem við ræðum er að mínu mati kjörið tækifæri og tilefni fyrir Alþingi og aðra til að skoða rekstur og framtíð RÚV. Ég hef áður sagt að við verðum að hafa hugrekki til að taka þá umræðu, ekki aðeins á grundvelli þess að standa vörð um stofnunina RÚV eða óbreytta stöðu hennar heldur miklu frekar hvernig við getum best nýtt takmarkað fjármagn í þágu þess markmiðs að efla íslenska menningu, tungu og framleiðslu.

Ég held að það sé einkum þrennt sem við hljótum að staldra við í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Í langan tíma, allt of langan tíma, hefur kostnaður RÚV verið meiri en tekjur. Umframeyðsla hefur verið fjármögnuð með lánum en stærsti vandinn er samt sem áður kostnaðartengdur, felst í of stóru húsnæði, of mikilli yfirbyggingu og of dýru dreifikerfi svo eitthvað sé nefnt.

Í öðru lagi er í þessari skýrslu bent á það að mun færri en áður nýta sér nú þjónustu RÚV. Tugprósentafækkun þeirra sem horfa og hlusta á þennan ríkisrekna fjölmiðil er staðreynd, bæði vegna þess að aðrir bjóða upp á sams konar þjónustu og einnig vegna þess að miklar tæknibreytingar hafa orðið.

Síðan virðist erfitt, og það er í þriðja lagi það sem bent er á í skýrslunni, að nálgast samræmdar upplýsingar um stöðu RÚV. Þrátt fyrir að í skýrslunni séu tölur, sagðar frá stofnuninni, er enn tekist á um hvað sé rétt og rangt í þeim. Eðlilegt eftirlit virðist líka erfitt. Það er hægt að sjá það hvað varðar Ríkisendurskoðun, fjölmiðlanefnd, fjárlaganefnd og fleiri. Þessu verður að breyta og þetta verður að bæta, enda er RÚV opinbert hlutafélag sem verður að þola slíka skoðun.

Ég held þó að mestu skipti, hæstv. forseti, að það blasir við að það er ekki aðeins þörf á breytingum hér og nú í verkefnum er varða RÚV, heldur er þörf á því að taka ákvarðanir um hlutverk, stöðu og tilvist RÚV til framtíðar. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að skoða rekstrarformið, það þurfi að skoða það að taka RÚV af samkeppnis- og auglýsingamarkaði og það þurfi að minnka umsvif þess í verkefnum sem varla verða skilgreind sem kjarna- eða menningarhlutverk (Forseti hringir.) þess.

Ég treysti því og vona að Alþingi hafi hugrekki til að takast á við þessar spurningar og aðrar í rekstri RÚV og hafi þar að leiðarljósi minni ríkisafskipti, ábyrga ráðstöfun opinberra sjóða, eðlilega samkeppni og varðstöðu um það sem skiptir mestu máli í þjónustu ríkisins.