145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið ánægjuefni að Ísland er loksins að eignast náttúruverndarlög sem eru betri en þau sem eru í gildi frá 1999. Það er framför í náttúruvernd á Íslandi sem er gríðarlega mikilvægt skref og löngu tímabært að sé stigið. Þessi vinna á sér langan aðdraganda og hefur átt sér stað alveg frá upphafi síðasta kjörtímabils. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hafa langt hönd á plóg í því að gera þennan dag og þessa niðurstöðu mögulega því að það eru sannarlega margir sem hafa komið að því verkefni.

Eins og hér hefur komið fram er ekki um sátt að ræða vegna þess að það verður áfram deilt um náttúruvernd á Íslandi en hér er um að ræða sögulega og mikilvæga málamiðlun. Við náum því að vera með sameiginlegan skilning á því um hvað náttúruverndarlög eiga að snúast. Það þarf að fylgja framkvæmdinni mjög vel eftir eins og hér hefur verið nefnt og við þurfum að fylgjast mjög vel með því að þessi löggjöf geri það sem (Forseti hringir.) henni var ætlað og það er að hún standi vörð um íslenska náttúru.