145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp fyrst og fremst til að þakka umhverfisnefnd fyrir frábær störf. Mig langar jafnframt til að þakka starfsmönnum Alþingis fyrir þeirra störf varðandi framgang þessa máls því að ég veit að nefndarritari hefur lagt á sig ómælda vinnu. Þá vil ég líka segja að starfsmenn umhverfisráðuneytisins hafa líka lagt á sig heilmikið til að þessi lausn, sátt eða málamiðlun, hvað sem við viljum kalla það, hafi náðst fram. Ég hef fylgst með því, ég held að náttúruvernd hafi nánast borið á góma hvern einasta dag í ráðuneytinu þetta tæpa ár sem ég hef verið þar, enda var lögð rík áhersla á það að náttúruverndarmálið væri (Forseti hringir.) helsta mál ráðuneytisins þetta árið. Í hjarta mínu ríkir mikil gleði yfir að standa núna frammi fyrir því að við séum að ganga til atkvæðagreiðslu um þetta mál.