145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur í atkvæðaskýringu hennar. Ég vil líka gera grein fyrir því að í e-lið sem breytir 19. tölulið, þar sem fjallað er um óbyggð víðerni, erum við að taka út tvö orð sem eru „á jörðu“ þar sem stendur skilgreining á óbyggðum víðernum en áður var það skrifað þannig að það væri staður þar sem menn gætu verið án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu. Þetta endurspeglar auðvitað þann breytta veruleika sem við þurfum að horfast í augu við að umferð vélknúinna farartækja í lofti fer stigvaxandi, hvort sem hún er mönnuð eða ómönnuð, og með því að taka þessi orð í burtu er átt við alla vélknúna umferð.