145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hérna upp og fjalla aðeins um utanvegaaksturinn. Ég get sagt að um leið og hann kom til umræðu í nefndinni, á lokametrunum, var ég sjálfur og allir nefndarmenn viljugir til að skoða nýja útfærslu og gerðum við atlögu að því. Þá kom líka í ljós að sá texti sem við erum með fyrir framan okkur er niðurstaða frá því á síðasta kjörtímabili, undir vissum kringumstæðum. Þetta er ákveðin málamiðlun sem kom fram og þannig náðist að sjatla málin þá.

Þarna er verið að færa inn í lagatextann orðalag úr reglugerð og svo hnykkjum við líka á því, enn úr reglugerðinni, við bætum við „ef ekki hljótast af því náttúruspjöll“. Náttúruspjöllin eru skilgreind í þessari reglugerð. Við komum inn á þetta í nefndarálitinu. Við erum að reyna að byggja varúðarregluna sem mest inn í alla greinina. Hún er bara einhvern veginn í lagatextanum, hvernig henni verður fylgt.

Þetta er lagagrein sem hefur verið túlkuð mjög þröngt. Þegar við fórum að vinna með breytt ákvæði um auknar leyfisveitingar og annað þá fengum við strax ábendingu um að þær undanþágur sem við erum að tala um hér hafa verið við lýði lengi og þarna eru fleiri þúsund aðilar sem þyrfti að fara að vísa inn í einhvers konar leyfisferli. Á þeim tíma töldum við ekki að við fyndum réttu útfærsluna þannig að við værum ekki að þyngja stjórnsýsluna eða stíga inn í eitthvað sem nú þegar hefur gengið upp.

Ég vil samt benda á í þessu að mikilvægt er að þeir aðilar sem hafa einhverjar heimildir hér nýti þær rétt. Ef þeir fara að misnota þær heimildir á einhvern hátt þá vita þeir að við getum breytt lögunum aftur ef á þarf að halda.

Ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að þurfa lagasetningu til þess að taka á öllum málum. Þetta snýst um menninguna. Ég vil taka dæmi eins og félagi minn úr lögreglunni, það er eðlilegt þótt þeir hafi ríka heimild til að aka utan vegar að það fari fram fræðsla innan lögreglunnar um það hvernig það er gert til þess að vernda náttúruna. Þannig er það ekki aðeins heimildin heldur hvernig við getum tryggt náttúruna þó að við þurfum að aka utan vegar og nýta þessa heimild.

Svona hvet ég alla, hvort sem það eru bændur, björgunaraðilar eða aðrir, að huga að þessu áður en þeir nýta sér heimildirnar, svo að það megi myndast sátt um þær og friður. Ég tel það mjög mikilvægt.

Ég vil segja að þar sem við fórum að ræða þetta svona seint þá er þetta er viss málamiðlun. Við erum að færa orðalag úr reglugerð inn í lögin og hnykkja á því í nefndarálitinu hvað náttúruspjöll eru, hvað sérstök landnotkun við landbúnaðarstörf eru, þau eru ekki almennt stunduð á miðhálendinu. Við reynum að taka á öllum þáttum. Við erum að bæta inn refsingum við utanvegaakstri. Það er verið að hnykkja á því. Varúðarreglan er komin inn í lagagreinina sjálfa og svo er líka fjallað um það í greininni að hún gengur ekki fram fyrir ákvæði í friðlýsingarákvæðum og annað slíkt.

En talandi um það þá kom upp við 2. umr. umræða um skilgreiningu á óbyggðum víðernum. Ég vil benda aftur á að það er skilgreining á óbyggðum víðernum og óbyggð víðerni verða ekki skilgreind fyrr en það hefur farið í gegnum visst ferli og friðlýsingar með aðkomu ýmissa aðila og annað slíkt. Þar er ekki verið að banna flug. Það eru sérreglur sem gilda um flug og þær munu gilda áfram á þessum svæðum. Þetta er þannig.

Varðandi utanvegaakstur er þetta grein sem er túlkuð þröngt. Það er verið að halda núverandi réttarástandi og verið að setja það í aðeins fastari skorður og tryggari stoðir. Að öðru leyti þakka ég fyrir.