145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Bara örstutt. Hér hefur verið rakið það ferli sem við höfum farið í varðandi ákvæði um utanvegaakstur og ég held að þær lýsingar sem hafa komið fram hjá bæði þingmönnum úr meiri og minni hluta séu réttar. Það er líka rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði hér áðan að þegar við erum ekki með undanþágurnar skýrar í lögum heldur höfum það í lögunum að leita þurfi til Umhverfisstofnunar um undanþágur gildir varúðarreglan ekki.

Ég vil bara segja eitt. Jafnvel þótt það sé staðreynd erum við að tala um undanþáguákvæði í lögum. Ég er þeirrar skoðunar að þegar við erum með skýrt ákvæði um undanþágur beri að túlka það þröngt. Það verði líka að skoða í því samhengi að við erum komin með í nefndarálitið hvað teljast vera náttúruspjöll og hvað ekki. Við höfum líka sett í lögin viðurlagaákvæði fyrir alla þá sem misnota sér þennan rétt sinn.

Ég held þannig að jafnvel þótt varúðarreglan eigi ekki við gildi þessi ströngu varúðarsjónarmið. Ég tel og hef alltaf talið að þegar við erum að tala um undanþágur á einhverju sem við viljum banna sé þeim betur fyrir komið í lögum en með ákvörðun Umhverfisstofnunar. — Fleira var það nú ekki.