145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum nú til atkvæða eftir 3. umr. um frumvarp til laga um náttúruvernd sem hefur átt sér langan aðdraganda eins og rakið hefur verið í þessum umræðum. Á síðasta kjörtímabili og við getum sagt í upphafi þessa kjörtímabils voru hörð átök um þetta mál og margvísleg sjónarmið komu upp. Skiptar skoðanir voru um mörg ákvæði laganna sem voru samþykkt hér vorið 2013 og hart deilt.

Ég tel að sú niðurstaða sem við höfum komist að í málsmeðferðinni í þinginu sé mjög góð. Ég held að hér sé um að ræða framfaraskref og það er mjög mikils virði að við höfum náð að lenda þeim helstu ágreiningsmálum sem uppi hafa verið í þessum efnum. Við höfum fundið lausnir sem eru kannski ekki eins og hver og einn í nefndinni hefði viljað hafa það en í sameiningu höfum við fundið lausnir sem menn eru tilbúnir að lifa við. Það er mjög gott og þó að umræðum og jafnvel ágreiningi um einstök mál sem snerta náttúruvernd og nýtingu náttúrunnar sé auðvitað ekki lokið með þessu (Forseti hringir.) er hér um mjög mikilvægan áfanga að ræða.