145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg atkvæðagreiðsla sem við erum í, hún mun skýra og skerpa löggjöf um náttúruvernd allverulega frá því sem nú er. Það er mikið framfaraskref sem við stígum hér. Við erum loksins að lögfesta löggjöf sem deilt var um og sett var fram á vordögum 2013. Eins og margir hafa sagt hefur tíminn unnið með því máli og líka þær grundvallarbreytingar sem við sjáum hér á landi með komu þess fjölda ferðamanna sem raun ber vitni. Það er jákvætt vandamál en veldur því engu að síður að við þurfum að taka öðruvísi á málum en áður.

Ég ætla að segja um þetta mál að þó að við séum fylgjandi þessu og fylgjum þeirri sátt sem við höfum náð þá eru alltaf atriði sem við hefðum viljað sjá öðruvísi. Það breytir því ekki að við erum nú komin með sterkan grunn til að takast á við náttúruvernd vonandi inn í langa framtíð.