145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna og gleðst mjög yfir því að ný náttúruverndarlög eru að verða að veruleika. Þetta eru lög sem skýra leikreglur og þetta er stórt skref í að vernda náttúru Íslands. Þetta eru lög sem setja auknar kröfur á ráðuneyti og stofnanir þess en við erum tilbúin í það verk.

Góð mál þurfa stundum nokkuð langan tíma til að ná fullum þroska eða góðum þroska og þetta er eitt af þeim. Ég tel að við höfum þurft þennan tíma til að vera betur undir það búin, einnig vegna þess sem hér hefur komið fram í orðum manna að veruleiki okkar hefur breyst talsvert mikið á tveimur árum, ekki síst varðandi gríðarlegan fjölda ferðamanna. Þess vegna höfum við þurft þessi ár til að geta farið yfir málin. Ég óska okkur öllum til hamingju.