145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir vel unna aðgerðaáætlun. Það fór um ár í vinnslu þessarar áætlunar og síðan hefur hún verið í eftirvinnslu þangað til hún kemur inn til okkar núna. Ég vil sérstaklega fagna því að í tillögunni er áætlun um fjármagn, sem er á fjórum árum um 562 millj. kr. Svo mun koma í ljós í meðförum nefndarinnar hvað vantar og hvað mætti betur fara, en ég er sannarlega ánægð með þessa vinnu og vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hana.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í. Annars vegar er það liður A.6, um að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld. Þar er gert ráð fyrir 29 millj. kr. á ári frá og með árinu 2017. Þar ríkir auðvitað alvarlegt ástand. Ég vil spyrja af hverju það hafi ekki verið strax á næsta ári áætlaðir fjármunir þarna inn.

Síðan er það liður A.9, um að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Þar er eingöngu fjárveiting á árinu 2016 upp á 33,1 millj. kr. Manni virðist sem það sé alls ófullnægjandi og ég ætlaði að fá betri útskýringu á þeirri fjárveitingu hjá ráðherra.