145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleðst svo sannarlega yfir því að tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum til fjögurra ára hafi nú verið lögð fram. Ég er mjög stolt í dag yfir því að hafa flutt þá tillögu sem var grundvöllurinn fyrir þessa aðgerðaáætlunargerð. Haustið 2013 flutti ég þingsályktunartillögu um að slík aðgerðaáætlun yrði samin. Með mér á tillögunni voru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þorsteinn Magnússon.

Mig langar að fara nokkrum orðum um þessa tillögu. Nú kemur hún inn í velferðarnefnd og við munum senda hana út til umsagnar. Við eigum eflaust eftir að fá ýmsar athugasemdir þó að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem tillagan verður send út til umsagnar. Þetta var vel unnið og tekið tillit til sumra eins og fram kom í andsvari ráðherra áðan. Ég veit til þess að sumir hafa áhyggjur af því að ekki sé fjallað þarna nægilega skilmerkilega um ADHD. Eins hafa menn áhyggjur af geðheilbrigði í tengslum við fæðingar barna, sem sagt að betur þurfi að passa upp á tengsl foreldra og ungbarna í þessari áætlun.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að þetta er ekki hin fullkomna áætlun en ég held að hún sé vel unnin. Hún miðast við ákveðinn ramma og þetta er mjög jákvætt og gott fyrsta skref.

Ég þakka starfshópnum sem vann þetta. Hann var leiddur af Guðrúnu Sigurjónsdóttur sem vann mjög gott starf. Ég fylgdist aðeins með starfi hópsins og allt var til fyrirmyndar. Í hópnum sátu náttúrlega fleiri auk þeirra fjölmörgu sem lesa má um í fylgiskjali III að komu á fund starfshópa eða á kynningarfundi.

Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur orðið enn meiri vakning varðandi umræðu um geðheilbrigðismál, mikilvægi þess að við búum við gott geðheilbrigði og að við séum með skilvirka og aðgengilega þjónustu fyrir þá sem eru veikir, hvort heldur sem fólk er alvarlega veikt eða lífsgæði þess hafi minnkað vegna minni háttar geðrænna kvilla. Það er mikilvægt að mæta fólki sem fyrst svo að hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegri sjúkleika. Við skulum hafa í huga að þessi áætlun, ef vel gengur, er mikilvæg fyrir einstaklingana sem njóta þjónustunnar, en hún er ekki síður mikilvæg þegar við lítum til þess að stærsta orsök í nýgengi örorku eru geðrænir kvillar.

Meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar eru, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Þetta eru falleg markmið. Svo eru undirmarkmið um að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Það eru nokkrar aðgerðir sem mig langar að tala aðeins um hérna. Ég var búin að fara yfir það í andsvari að tillögunni fylgir fjárhagsáætlun. Við hefðum auðvitað öll viljað sjá meiri peninga fara þarna inn en við sjáum þó fram á að á næstu fjórum árum koma 562 nýjar milljónir í geðheilbrigðismál. Svo verðum við að sjá hvort ástæða sé til þess að við í þinginu þrýstum saman á um frekari fjárveitingar.

Það er markmið að fólk upplifi þjónustuna samþættari, að unnið verði að því að samþætta hana og að árið 2020 telji 70% af notendunum hana vera samþætta og samfellda. Það kemur ekki fram í tillögunni, ekki svo ég hafi séð, hvernig staðan er núna. Það væri mikilvægt að vita það svo að við vitum hvort þetta séu nógu metnaðarfull markmið.

Svo erum við hér með verkefnið Tölum um börnin. Þar er ekki síst markmiðið að koma í veg fyrir að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða. Í ræðu minni þegar við vorum að samþykkja þessa tillögu á þinginu þá fór ég nokkuð ítarlega yfir þennan þátt. Það er mjög mikilvægt að huga að börnum og fjölskyldum þeirra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.

Ein glæsilegasta tillagan hér er þjónusta sálfræðinga á heilsugæslustöðvum, að hún verði efld. Strax á næsta ári sjáum við þess merki í fjárlögum að verið er að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni. Sú fjölgun á að halda áfram á komandi árum þannig að á 90% heilsugæslustöðva verði aðgengi að gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum svo sem þunglyndi, kvíðaröskun og áfallastreitu. Markmiðið er 50% fyrir árslok 2017, þannig að það er aldeilis þörf á átaki þarna, og að það fari upp í 90% í lok árs 2019.

Það er sannarlega ánægjulegt að þetta sé nú þegar komið inn í fjárlagafrumvarpið. Það verður mikil bót í þjónustu og lyftistöng fyrir heilsugæsluna.

Varðandi þjónustu á göngudeild BUGL er mjög mikilvægt að hún verði efld. Mér finnst koma til greina að við könnum hvort við reynum ekki núna í fjárlögum fyrir árið 2016 að hefja það átak þegar í stað.

Síðan á að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu. Ég held að nefndin muni skoða það nokkuð vel og hvort fjárveiting í það sé nægjanleg.

Hér eru metnaðarfull og góð markmið um geðrækt og forvarnir. Þar er meðal annars komið inn á þverfagleg teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Þá er mikilvægt að við lítum til þess að fólki sé hjálpað þegar það er að hefja hlutverk sitt sem foreldrar og að fólki sé komið til aðstoðar eins fljótt og verða má svo að hægt sé að koma í veg fyrir að vandinn aukist með árunum. Það þarf að grípa strax inn í.

Líka er lagt til að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veittur viðeigandi stuðningur með meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Þetta verkefni verður hafið strax á næsta ári. Ég held að allir séu sammála um að það verði mikil bót í því.

Hér er kafli um fordóma og mismunun. Þar langar mig sérstaklega að tala um verkefni í lið C.3 um að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa í stofnunum sínum. Þetta er fyrirmyndarverkefni og á að gera með myndarbrag. Það skiptir auðvitað máli að fólk sé ekki útilokað frá samfélaginu vegna veikinda heldur gefið tækifæri til fullrar þátttöku sem ýtir undir, ef vel er gert, bata eða betri líðan.

Eins og ég sagði þá hefur frá því að tillagan var lög fram haustið 2013 og síðan samþykkt í janúar 2014 aukist mjög umræða og meðvitund um geðheilbrigðismál. Sjúklingahópar hafa gert sig gildandi í umræðunni sem er vaxandi.

Það er ánægjulegt að nú þegar eru komnar fjárveitingar til heilsugæslunnar út af sálfræðiþjónustu og til Þroska- og hegðunarstöðvar út af greiningum á ADHD. Það er kannski stærsti veikleiki tillögunnar að ADHD-vandinn er ekki reifaður almennilega en í meðförum nefndarinnar munum við sjá hvort það þurfi ekki að koma honum aðeins hér inn, enda er ógreint ADHD mikið mein fyrir einstaklinga í samfélaginu, sem fá ekki notið hæfileika sinna vegna slíkra taugasjúkdóma eða (Forseti hringir.) hvað maður á að segja og eiga að fá viðunandi meðferð og lyf eftir þörfum.