145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára þar sem Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt þeirri stefnu sem birtist í þessari tillögu og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.

Fyrst vil ég segja að það er alltaf ánægjulegt þegar stefnumótandi áætlanir, og vandaðar eins og sú sem við ræðum hér er, eru settar fram og byggja á faglegum grunni, fela í sér markmið sem eru sundurgreind í meginmarkmið, undirmarkmið, langtímamarkmið, skammtímamarkmið og tímasettar og ábyrgðarvæddar áætlanir. Sett eru viðmið og ætlast er til að þeim sé fylgt eftir og greint frá því með hvaða hætti það verði gert. Mér finnst mikilvægt að draga það fram, en það er auðvitað ekki síður efni tillögunnar og innihald þeirrar áætlunar sem vert er að ræða.

Áður en ég kem að efni og innihaldi tillögunnar finnst mér full ástæða til að hrósa fólki fyrir vinnuna, framsetninguna og hrósa öllum þeim sem komið hafa að vinnunni og taka þar með undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Fram hefur komið að tillagan byggir á þingsályktun sem samþykkt var á vorþingi 2014. Þá þegar var skipaður stýrihópur með erindisbréfi ráðherra. Ég leyfi mér jafnframt að fullyrða að allir í þessum hópi og aðrir sem komið hafa að þessari vinnu og greint er frá í tillögunni hafa ekki setið auðum höndum því að tíminn er ekki mjög mikill. Þetta er frekar skammur tími miðað við gæðin í tillögunni. Það er gjarnan þannig þegar umfangið er mikið að víða er hægt að bera niður og þá um leið hægt að bæta við hlutum og gagnrýna eitthvað. En í heild lítur þetta mjög vel út. Ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að nýtast okkur mjög vel á komandi missirum.

Ég ætla að ræða helstu atriði tillögunnar út frá framsetningunni. Þegar stefnumótandi áætlun liggur fyrir er uppröðunin á tillögunni með þeim hætti að þægilegt er að ræða hana út frá framsetningu. Og af því að þetta er stefnumótandi áætlun ætla ég að koma inn á markmiðin. Fram kemur þegar í upphafi tillögunnar að meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar sem unnið er eftir er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.“

Þessu meginmarkmiði fylgja þrjú undirmarkmið. Það fyrsta er að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld. Það er eitt af stóru verkefnunum og raunar rauði þráðurinn í tillögunni, sem er vel, vegna þess að þessir sjúkdómar, allt eftir því hvernig þeir eru skilgreindir, skarast á við fjölmarga aðila og stofnanir og er mikilvægt að ná fram samvinnu og samþættingu í þeim efnum.

Annað undirmarkmið tillögunnar snýr að uppeldisskilyrðum barna og því að stuðla að vellíðan þeirra. Þriðja markmiðið er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Þetta eru allt verðug markmið og þau eru vel uppsett. Ég ætla að skoða þessi markmið eilítið, aðallega undirmarkmið 2 sem snýr að uppeldisskilyrðum barna og unglinga og að stuðla að vellíðan þeirra.

Mikilvægt er að hlúa að forvörnum í þessu máli eins og mörgum öðrum á heilbrigðissviði og það eru mjög margir jákvæðir þættir og verkefni sett fram í þessum forvarnaþætti. Ég sakna þó eilítið meiri áherslu á hreyfingu og þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Reyndar er komið inn á það í lið B.2. Þar er sagt að settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum, sem er vel. Þar eru nefnd dæmi um samstarfsaðila. Meðal annars er íþróttahreyfingin nefnd þar. Ég vil koma því á framfæri í þessari ræðu og vísa til hv. velferðarnefndar að skoða aðkomu mismunandi aðila, eins og samstarfsaðila að öllum þeim þáttum sem heyra undir markmiðið um geðrækt og forvarnir.

Það er hins vegar tekið fram í greinargerð með tillögunni og er mikilvægt að draga fram að það eru svo margir aðilar sem þessi málaflokkur snertir að oft er sagt í tillögunni að um sé að ræða stofnanir eða félagasamtök. Ég held að varðandi flokkinn undirmarkmið 2 sé mjög mikilvægt að huga að hreyfingu og skipulögðu íþrótta-, félags- og tómstundastarfi.

Ákveðin þróun hefur átt sér stað undanfarið, við munum sjá hana á næstu árum og er gerð er ágætisgrein fyrir henni í greinargerð með tillögunni. Hún er að geðheilsuvandi verður æ minna feimnismál og er það vel. Því verður sá vandi sýnilegri. Þannig mun verkefnum og viðfangsefnum á þessu sviði fjölga og þau munu jafnvel verða flóknari. Þá reynir enn frekar á þann þátt sem er raunar eitt af meginmarkmiðunum með tillögunni og áætlunarinnar, sem er að samþætta aðgerðir hinna ýmsu aðila, sérfræðinga, fagaðila, stofnana, skóla — skólar eru auðvitað mjög mikilvægur þáttur í uppeldi barnanna okkar — og sveitarfélaga, félagasamtaka, vinnumarkaðar, íþróttafélaga og félagasamtaka allra sem standa að skipulögðu félags- og tómstundastarfi. Við getum nefnt alla þessa hagsmunaaðila í þessari vegferð sem er að stuðla að bættri líðan, vellíðan almennt og þátttöku í leik og starfi eins og meginmarkmið tillögunnar segir til um.

Það er vel að hér er lögð áhersla á samþættingu þjónustu bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur og með áherslu á geðrækt og forvarnir og sjónum beint sérstaklega að börnum og unglingum.

Ég ætla að leyfa mér að ítreka hrós og þakkir til hæstv. ráðherra sem fór vel yfir málið í framsögu. Ég fagna þessari tillögu og hef mikla trú á að hún eigi eftir að færa okkur framar á þessu sviði á komandi árum.