145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér líkar það sérstaklega vel þegar hæstv. innanríkisráðherra kallar það fjárfestingar, á ákveðinn hátt eru það fjárfestingar þegar við fjármögnum þennan málaflokk almennilega. Það kostar mikla peninga að klúðra þessum málum, það getur kostað gríðarlega mikla peninga og það getur gengið á réttindi og jafnvel líf fólks eðli málsins samkvæmt.

Hvað varðar fjármagnið þá fagna ég því mjög að hæstv. innanríkisráðherra reyni hvað best hann getur að ná 80 milljónum til viðbótar, hann fær vitaskuld minn stuðning við það. Í því sambandi þykir mér óhætt að nefna að þá finnst mér líka mikilvægt að það sé eyrnamerkt í þá starfsemi þar sem fjárþörfin er beinlínis farin að valda óöryggi. Staðan á Litla-Hrauni er þannig núna, þegar þar er undirmannað og gríðarlegt álag þá þýðir það að það er miklu færra sem þarf að bresta til þess að alvarleg atvik komi upp, sem starfsmenn í þokkabót hafa ekki næga ástæðu til að eiga við ef út í það er farið. Þegar fangar eru farnir að skynja að ekki sé nægur mannafli til að fylgjast með vímuefnum þá nýta þeir sér það að sjálfsögðu. Þess vegna er aukin vímuefnaneysla núna á Litla-Hrauni. Það kemur niður á öryggi fangavarða, sem aftur veldur þessum vítahring sem við þurfum að rjúfa. Við höfum eina mjög einfalda og sjálfsagða leið til þess að rjúfa hann, það er að fjármagna málaflokkinn eftir þörfum sem maður hefði haldið að væri heldur sjálfsagt.

Þetta er tifandi tímasprengja, að mínu viti, sér í lagi ástandið á Litla-Hrauni. Við verðum að grípa inn í. Ég fagna því að allir sem skoða þennan málaflokk virðast algjörlega sammála um það.

Hvað varðar geðheilbrigði þá held ég að það sé tvíþætt. Það er annars vegar þau vandamál sem hæstv. ráðherra nefndi, sem eru öll sönn og rétt, eftir því sem ég best veit, en það er líka það hverja við erum að senda í fangelsi í staðinn fyrir að veita þeim önnur úrræði. Það er annar hluti af þeirri jöfnu sem við höfum ekki rætt nógu ítarlega að mínu mati.