145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru fjöldamargir fletir á þessu máli sem við eigum ábyggilega eftir að ræða um alla framtíð í tengslum við þetta frumvarp og frekari tillögur sem vonandi líta dagsins ljós ekki innan of langs tíma. Ég nota þetta orð sem hv. þingmaður nefndi vegna þess að mér finnst að í þessu efni séum við að fjárfesta í því að reyna að koma fólki aftur út í samfélagið. Það hlýtur að vera tilgangurinn með þessu öllu saman að draga úr þessari endurkomu, líta til unga fólksins og allra þeirra sem þurfa til fangelsis að koma þannig að þeir geti bætt sitt ráð. Í vissum tilvikum er það mjög erfitt, við vitum það alveg, en höfum það samt að markmiði, að það sé það sem við erum að gera og reynum þá að beina fjármunum í það. Það verður ekki gert með því að setja peninga í að byggja rými, það þarf að gera það með því að reksturinn og það sem er verið að gera í kerfinu öllu, að þeir fjármunir sem þar eru nýtist sem best.

Alltaf er verið að reyna að finna leiðir í því og nú er verið að reyna að koma því til leiðar að félagsþjónusta sveitarfélaganna komi til dæmis fyrr inn í fangelsin til að styðja við fanga, líka þegar þeir eru á leiðinni út úr fangelsunum, til að hjálpa fólki að stíga sín fyrstu skref. Það eru gríðarlega viðkvæmir tímar, hæstv. forseti, þegar fangar stíga út úr fangelsunum og eru að reyna að komast aftur inn í samfélagið og aðrar freistingar eða aðrir hópar toga menn hugsanlega til baka aftur. Það er viðkvæmur tími og það þarf líka að gæta að því þegar við lítum til fangelsismála. Það er bæði aðdragandinn þegar verið að ákveða hvers konar refsing er heppileg og hvernig eigi að fara í aðra þætti, meðferðaráætlanir, það er vistunin sjálf og síðan það að koma mönnum aftur út í samfélagið og vonast til þess að geta bætt líf þeirra.