145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við lítum til stefnumörkunar, og kannski birtist það í fullnustuáætluninni líka, að þær ákvarðanir sem við tökum séu fyrst og fremst teknar út frá því sem við ætlum að ná fram. Auðvitað skiptir máli að við höfum alltaf úr takmörkuðum fjármunum að spila í öllum okkar málaflokkum og þannig er það í öllu sem við gerum, en það á samt ekki að verða meginröksemd fyrir einhverri tiltekinni leið að við séum í þröng eða með langa biðlista. Við gerum þetta vegna þess að við teljum að það sé betra fyrir kerfið í heild sinni, fyrir þá sem þurfa að nota það og síðan okkur sem höldum utan um það á öllum stigum. Mér finnst það skipta máli og þess vegna finnst mér mikilvægt fyrir okkur núna að velta fyrir okkur samfélagsþjónustunni. Ég held að það sé mjög mikilvægt og þótt mér þyki nauðsynlegt að draga fram þann mikla fjölda sem bíður er það fyrst og fremst til þess að vekja athygli á því hvað vandinn er umfangsmikill en ekki til þess að fara fram hjá vandanum. Við verðum töluvert langan tíma að leysa úr honum. Það að leggja til samfélagsþjónustu er ekki af því að röðin sé svona mikil heldur af því að hún er til góðs. Það er punkturinn.

Vandinn er hins vegar orðinn af þeirri stærðargráðu að það er mikið áhyggjuefni fyrir yfirvöld þessara mála að horfast í augu við það að 500 einstaklingar bíði. Þessi mikli fjöldi hefur orðið frá efnahagshruninu og ég er ekki undrandi á því að fangelsismálastjóri sé oft þungbúinn þegar hann ræðir þessi mál. Þegar menn bera ábyrgð á þessu er auðvitað þungt að horfa framan í þessa stöðu en við þurfum öll að horfast í augu við hana, hún fer ekkert frá okkur, a.m.k. ekki til skemmri tíma.