145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[17:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég virði það og það er mjög gott að fá að eiga andsvör við ráðherrann.

Mér finnst mjög mikilvægt að það verði fundin einhver leið til að meta stöðuna, mér finnst ómögulegt þegar fólk er sett í fangelsi þegar það er í raun búið að afplána með því að bíða svo lengi. Mér finnst brýnt að skoða það, jafnvel bjóða upp á samfélagsþjónustu í staðinn fyrir að fólk fari inn, jafnvel frá fjölskyldu sinni eða úr námi eða einhverju slíku, þegar fólk er búið að ná tökum á lífi sínu.

Það er annað sem mér finnst ekki síður mikilvægt, við þurfum að finna leið til að skýra lögin betur um svo margt. Þau eru oft loðin og flókin. Eitt af því sem ég hef hoggið eftir undanfarið er mjög mismunandi mat á gæsluvarðhaldi. Mér finnst til dæmis stórkostlega skrýtið að manni sem er með þroskagreiningu á við 12 ára barn sé haldið lengi í gæsluvarðhaldi án þess að aðstandendur fái að tala við viðkomandi. Mér finnst það mjög alvarlegt og hrein og klár mannréttindabrot. Á sama tíma er þeim oft sleppt sem hafa brotið á börnum kynferðislega eða verið ákærðir fyrir nauðgun eða eitthvað slíkt. Þarna er greinilega eitthvað skakkt varðandi rannsóknarhagsmuni, ég verð bara að segja það. Það er mjög mikilvægt og brýnt að lögin séu fullkomlega skýr sem og reglurnar svo lögreglan viti nákvæmlega í hvorn fótinn hún á að stíga.