145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Árásirnar í París síðastliðinn föstudag voru okkur öllum mikið harmsefni. Ég tek undir með forseta Alþingis að hugur okkar er að sjálfsögðu hjá frönsku þjóðinni og þeim sem um sárt eiga að binda við þessar hörmulegu aðstæður. Þetta var árás á þau grunngildi sem franska byltingin mótaði um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Það er mikilvægt að minna á að þessi ofbeldisverk hafa ekkert með trú eða þjóðerni að gera. Þau byggja á óskiljanlegri og andstyggilegri hugmyndafræði sem sér ógn í umburðarlyndi og frjálsu samfélagi. Svar okkar hlýtur að vera það sama og svarið sem Jens Stoltenberg gaf eftir hörmungaratburðina í Útey og Ósló, að mæta ógninni með því að efla enn frekar opið, frjáls samfélag og mannúð án þess þó að vera bernsk gagnvart þeirri hættu sem við er að eiga.

Það skiptir miklu hvernig stjórnvöld bregðast við á tímum sem þessum því að það er auðvelt að kynda undir einangrunarhyggju og fordóma hér á landi sem annars staðar. Ég vil sérstaklega hrósa hæstv. innanríkisráðherra við þetta tækifæri fyrir þær yfirlýsingar sem hún hefur látið frá sér fara frá því á föstudag. Það er mikilvægt að yfirlýsingar stjórnvalda byggi ekki á hindurvitnum eða flökkusögum heldur á staðreyndum og yfirvegaðri túlkun á þeim. Það hefur t.d. ekkert komið fram sem styður við staðhæfingar um að opin landamæri Evrópu séu orsök þessara árása, ekki neitt. Við skulum bregðast við aukinni löggæsluþörf ef hún er fyrir hendi en ekki búa hana til á grundvelli afbakaðra staðreynda.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún deili ekki þessari skoðun með mér og að það sé mikilvægt að við förum varlega í að draga ályktanir (Forseti hringir.) þar til allar staðreyndir liggja fyrir um rannsókn þessara hörmungaródæðisverka.