145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París.

[15:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Um leið og við tölum um hversu mikilvægt það er að frelsi okkar sé tryggt þurfum við líka að gæta að því að við þurfum að hafa ákveðna hluti í lagi til að svo sé. Það er enginn vafi á því að þá skiptir löggæsla í hverju landi máli. Við verðum alltaf að átta okkur á því að góð löggæsla er stoð við það að við getum lifað frjáls í landi. Það er órjúfanlegur hluti af því að við höfum slíkt frelsi innra með okkur. Það er því mjög mikilvægt við þessar aðstæður að gera ekki lítið úr þeim mikilvægu störfum sem lögregla gegnir á hverjum tíma í hverju landi, hvort sem er gagnvart sínum eigin borgurum eða gæta að öryggi í víðara samhengi.

Eitt af þeim verkefnum sem Schengen-ríkin standa frammi fyrir núna þegar straumur flóttamanna hefur verið svo mikill og þeim hefur ekki tekist að halda nóg vel utan um eru skráningar á ytri landamærum. Það er sá vandi sem menn vilja leysa og er mjög mikilvægt að við sameinumst um að leysa. Það er stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir á vettvangi Schengen. Það skiptir (Forseti hringir.) svo miklu máli að það takist vel svo að regluverk Schengen haldi til framtíðar.