145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér heyrist að það sé aðeins ólíkt mat manna á því hvar þessi vinna standi. Þingflokkur framsóknarmanna fékk kynningu á stöðu vinnunnar fyrr í dag og þar hefur ýmislegt gengið ágætlega en einhver mál eru að mér skilst enn óleyst. Hvað sem því líður þá er auðvitað tímabært að formenn stjórnmálaflokkanna hittist til að ræða framhald þessa máls því að það er ekki gott fyrir nefndina að skila því inn í eitthvert tómarúm, einhverja óvissu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvað tekur við næst.

Í ráðuneytinu hjá mér er verið að reyna að koma á fundi formanna flokkanna. Mér skilst að hringt hafi verið út í dag, ég vona það, það var gert ráð fyrir því. Í öllu falli sé ég ekki annað en að við hljótum að ná saman slíkum fundi á næstu dögum, en ráðherrar og formenn annarra flokka hafa ekki allir verið á sama punktinum um nokkurra daga skeið. Mér sýnist að hér séu flestir eða allir saman komnir þannig að vonandi förum við að hittast, t.d. á morgun.