145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

umfjöllun um hryðjuverkin í París í fjölmiðlum.

[15:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að fyrstu fréttir af því hvað er í gangi í tengslum við voðaverkin í París eru mjög á reiki og viðstöðulaust verið að draga til baka fréttir eins og fréttina um falsaða sýrlenska vegabréfið. Mér finnst mjög mikill ábyrgðarhluti að við séum ekki að kasta hérna einhverju fram án þess að búið sé að staðfesta það af þar til bærum yfirvöldum. Nú þegar eru fréttir um að sýrlenskum flóttamönnum hafi verið hafnað landvistarleyfi víða um Bandaríkin. Ég held að sé mjög brýnt að við pössum hvernig við tölum um þessi mál því að við megum ekki ala á óttanum gagnvart einhverjum tilteknum þjóðarbrotum, sér í lagi ekki gagnvart fólki sem hefur þurft að ganga í gegnum hörmungar daglega eins og áttu sér stað einn dag í París.