145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

umfjöllun um hryðjuverkin í París í fjölmiðlum.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan. Ég held að okkur sé óhætt að treysta fólki, treysta almenningi meira en hv. þingmaður virðist gera. (Gripið fram í.) Fólki dettur það ekki í hug og þó að það sé svo að segja augljóst að glæpamenn nýti sér það þegar yfir milljón manns streymir til álfunnar á nokkrum mánuðum þá dettur afskaplega fáum í hug að í því felist að flóttafólk sé almennt glæpamenn eða hryðjuverkamenn. Þeir sem halda það — ja, við hljótum að sameinast um að það þurfi að leiðrétta slíkan misskilning. Hver er besta leiðin til að leiðrétta slíkar rangfærslur og slíkan misskilning? Það er að tala um hlutina, ekki að reyna að þagga þá niður eins og hv. þingmaður virðist leggja hér til.