145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

bygging íbúða á Hlíðarendasvæðinu.

[15:26]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því fyrir hönd þingflokks míns að þakka forseta fyrir orð sín hér í upphafi fundar og taka undir þau.

Ég ætla að sama skapi að snúa mér aftur að þeim verkefnum sem bíða okkar. Mig langar aðeins að varpa ljósi á þann tvískinnung sem ég upplifi í verkum ríkisstjórnarinnar við að leysa þann brýna húsnæðisvanda sem fyrir liggur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Eina stundina tala flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar fyrir mikilvægi þess að leysa húsnæðisvandann sem upp er kominn eftir áralangt frost á húsnæðismarkaði en aðra stundina gera þeir fátt annað en að tefja og standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu.

Ég veit ekki með aðra en ég dæmi fólk eftir gjörðum þess en ekki eftir því sem það segist ætla að gera. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hún hyggst standa í vegi fyrir því að 400 litlar íbúðir fái að rísa við Hlíðarenda í Reykjavík. Þörfin fyrir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er mjög mikil. Á fundi sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur síðasta föstudag þegar kynntar voru tillögur núverandi meiri hluta Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, sem hefur fylkt sér að baki uppbyggingu 7.000 íbúða í Reykjavík næstu fimm árin, kom fram hörð gagnrýni frá uppbyggingaraðilum á Hlíðarenda þar sem þeir hafa farið fram í góðri trú um að í ríkisstjórninni væri sómakært fólk sem stæði við undirritaða samninga.

Það er nefnilega þannig að samningar hafa verið undirritaðir og áætlanir hafa verið gerðar út frá því og framkvæmdir eru hafnar, en núverandi ríkisstjórn virðist ekki telja sig bundna af þeim samningum sem hún undirritar sjálf. Gæti verið, hæstv. forseti, að það sé nákvæmlega þetta sem sé að íslensku samfélagi? Við stöndum ekki við undirritaða samninga, við erum ófær um að klára stór og erfið mál og látum undan tilfinningaþrungnum þrýstingi sem á sér enga stoðir í raunveruleikanum. Getur verið að það sé nákvæmlega í því sem vanmáttur stjórnmálakerfisins sem við höfum (Forseti hringir.) byggt upp kristallast? Það er endalaust tal og á eftir fylgir svo einhver ruglingur. Ég hef trú á (Forseti hringir.) því að hæstv. innanríkisráðherra sé partur af lausninni, ekki partur af vandanum.