145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

bygging íbúða á Hlíðarendasvæðinu.

[15:31]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Þakka ráðherranum svarið. Ég verð að segja að ég skil ekki þessa umræðu um neyðarbrautina. Hvar er þessi braut skilgreind sem einhver neyðarbraut? Þetta orð hefur einhvern veginn bara dúkkað upp og verið viðurkennt … (Innanrrh.: Svokölluð.)— Svokölluð einmitt, eins og hið svokallaða hrun. Ég skil ekki hvernig við getum bara sætt okkur við það að eitthvert fólk úti í bæ ákveði það að einhver fylgibraut á þessum flugvelli sé kölluð neyðarbraut og heilt ráðuneyti taki ákvarðanir í kjölfarið út frá því. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að notkunarstuðull þessarar brautar sé með þeim hætti að hann eigi ekki að draga úr öryggi flugsamgangna í Vatnsmýrinni. Þessi flugbraut á ekki að hafa neitt með þessa tilteknu uppbyggingu að gera.

Ég verð að segja að ef ákvörðunin sem innanríkisráðherra er að búa sig undir að taka er að loka ekki þessari braut og fara ekki að þeim samningum sem hafa verið undirritaðir þá hefur hún vissulega mjög mikil áhrif á þau uppbyggingaráform sem fyrir liggja í borginni. Það er á skjön við allt sem aðrir (Forseti hringir.) ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa talað um.