145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

vinna stjórnarskrárnefndar.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ómögulegt að ætla að fara út í einhverjar efnisumræður um stjórnarskrárbreytingar í fyrirspurnatíma. Það eru nokkur atriði sem þurfa að vera á hreinu. Ég hef stutt þessa vinnu og geri enn. Ég tel það vel koma til greina að taka hverja af þeim tillögum sem hafa verið skoðunar eina og sér í gegnum þingið. Það væri í anda þess sem ég hef ávallt talað fyrir, að það þurfi að vera breið samstaða um stjórnarskrárbreytingar eins og við höfum ávallt haft það hér á lýðveldistímanum.

Varðandi tímasetningu atkvæðagreiðslunnar þá hef ég áður sagt að það gæti verið heppilegt að við mundum kjósa um stjórnarskrána samhliða forsetakosningum. Það er samt sem áður ekki úrslitaatriði. Þó verðum við að hafa í huga að ef efnt yrði til sérstakrar atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingarnar þá værum við að gera það á grundvelli bráðabirgðaákvæðis sem kallaði eftir töluvert mikilli þátttöku. Menn yrðu þá bara að meta það hér í þinginu hvort það væri líklegt að slík þátttaka tækist, sérstaklega ef við værum með eitt ákvæði stjórnarskrárinnar undir.

Mér finnst (Forseti hringir.) mikilvægt að menn tali sig ekki út í horn í þessari umræðu. Ég ætla ekki að láta stilla mér þannig upp að ég (Forseti hringir.) fari að setja einhverjum einhverja afarkosti í þessu máli. Ég vil ná sameiginlegri góðri niðurstöðu (Forseti hringir.) um tímasetningu atkvæðagreiðslunnar og einstök atriði.