145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[16:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og óska þingmönnum öllum til hamingju með dag íslenskrar tungu. Ég get tekið undir með þingmönnum sem hér hafa talað um mikilvægi þess að íslenska verði gjaldgengt tungumál í heimi tækja og tölva. Það var eitt stærsta heillaskref íslenskunnar, alla vega síðustu áratugina, þegar tókst að tryggja að íslenska væri gjaldgeng og íslenskir stafir í umhverfi stýrikerfa o.s.frv.

Ég var þess heiðurs aðnjótandi í morgun að vera gestur í Hvolsskóla á Hvolsvelli þar sem nemendur halda daginn hátíðlegan með því að lesa Njálu og gera tungunni hátt undir höfði. Þá varð mér hugsað til þess að það er engin tilviljun að þau eru að lesa Njálu, ekki bara það að þau lifa á Njáluslóðum. Þau velja Njálu frekar en t.d. símaskrána eða Alþingistíðindi vegna þess að Njála er listaverk sem kemur úr íslenskri menningu og við samsvörum okkur við. Og mér finnst mjög mikilvægt í þessari umræðu allri að við lærum ekki tungumálið af ísskápnum okkar. Sá sem hér stendur á alltaf gamla bíla og leiðbeiningarbæklingarnir með þeim bílum eru á útlensku en samt tala ég alltaf á íslensku við þá sem gera við bílana þegar þeir bila. Það er vegna þess að ég og bifreiðavirkinn minn erum íslenskir, við erum Íslendingar.

Það skiptir máli að efnið í þessum stafrænu tækjum sé íslenskt, að bækurnar, menningin sé íslensk og á íslensku. Íslensk fyndni þýðist ekki svo auðvelda yfir á ensku í Google Translate. Við lesum hana á íslensku og skiljum hana á íslensku af því að við erum Íslendingar. (Forseti hringir.) Þó svo að við setjum aukna fjármuni í það að tryggja íslensku í stafræna heiminum þá megum við ekki gleyma því að styðja áfram við íslenska menningu, bókmenntir o.s.frv.